Jón Gnarr segist vilja fá kaupmanninn á horninu aftur.
Þetta er kannski ekki svo fjarlægur draumur. Hvarvetna á Vesturlöndum er þróunin sú að ungt og vel menntað fólk vill búa inni í borgum. Afleiðingin er sú að húsnæðisverð þar fer hækkandi – og í kreppuástandi helst það hátt, meðan húsnæðisverð á jaðrinum lækkar.
Þetta fólk er að leita að borgarumhverfi fyrir sig og fjölskyldur sínar. Það kærir sig ekki um að eyða löngum stundum í skutl milli staða, eða hverjum finnst gaman að silast áfram í umferð marga klukkutíma í viku? Það vill geta gengið í borg sem örvar skynfærin – þar sem er margt að sjá og upplifa. Og með auknum fjölda vel megandi fólks í miðborgum er afur von á að sjá kaupmenn á horninu – líkt og Jón Gnarr talar um.
Í Bandaríkjunum hafa borgir af þessu tagi verið að taka forskotið í samkeppninni um best menntaða fólkið, staðir eins og New York, San Francisco, Boston, Portland og Seattle. Það er talað um spekistraum þúsaldarkynslóðarinnar inn í miðborgirnar. Á móti merkja menn hnignun úthverfamenningarinnar sem varð allsráðandi upp úr 1960. Hún er of dýrkeypt, bæði hvað varðar tíma fólks og umhverfið.
Því í raun eru þéttar borgir umhverfisvænni en hinar dreifðu, það gefur auga leið. Það er minni akstur, styttri leiðslur, meiri samnýting, minna pláss undir bílastæði, möguleikar á betri almenningssamgöngum.
Ein forsenda þessa er auðvitað að byggðin sé nógu þétt. Þess vegna er mikilvægt að byggja í miðborginni, ekki við aðalgöturnar eða í grónustu hverfunum, heldur á auðum svæðum og á jöðrum hennar. Það er líka mikilvægt að byggðamynstrið sé fjölbreytt, að líka sé í boði húsnæði sem ungt fólk hefur efni á að kaupa. Eins og er virðist stefna í að íbúðaverðið í miðborginni verði svo hátt að ungt fólk ráði ekki við það.
Ég nefni sem dæmi 120 fermetra íbúð sem er til sölu í götu þar sem ég bjó fyrstu ár aldarinnar. Stuttu eftir að ég flutti þangað var íbúðin til sölu á 19 milljónir, svo fór hún á sölu í kringum 2005 og kostaði þá 27 milljónir, nú er hún aftur komin á sölu og verðmiðinn er heilar 47 milljónir.