Það er sérkennilegur málflutningur hjá forystumönnum í Samfylkingunni, sem hafa sótt fast að ganga í ESB, að hollt sé að hægja á aðildarferlinu nú þegar styttist í kosningar.
Víst er að margir stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru foxillir yfir þessu. Það er ekki ólíklegt að þetta hafi þau áhrif að enn meira fylgi leiti frá Samfylkingunni til Bjartrar framtíðar – þar sem Evrópusinnar eru allsráðandi.
Steingrímur J. virkar hins vegar glaður. Á sama degi tekst honum að stoppa aðildarviðræður við ESB og að fá samþykkta rammáætlun í þinginu. Þetta er besti dagur hans í langan tíma.
Aðildarviðræðurnar hafa tekið óhemju langan tíma, það er ekki enn farið að ræða sjávarútveg- og landbúnað. Þær hafa verið í hægagangi – og nú fara þær í enn meiri hægagang. Varla er það fagnaðarefni.
Eftir hverju er þá beðið?
Jú, einfaldlega því að við taki ný ríkisstjórn sem þarf að ákveða hvernig verður tekið á málinu. Málið er í raun lagt í hendur næstu ríkisstjórnar.
Nú þegar búið er að setja viðræðurnar á ís væri í raun auðvelt fyrir nýja stjórn að láta málið einfaldlega lognast út af. Annar möguleiki er auðvitað að við taki stjórn sem ákveður að hefja viðræðurnar að nýju af krafti, en það er vandséð hvernig hún ætti að vera samansett.
Tæplega verður þetta niðurstaðan ef Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsókn mynda næstu ríkisstjórn – nú eða Vinstri grænir, sem virðast vera búnir að fá sig algjörlega fullsadda af ESB.