Hún er ekki alveg ný af nálinni sú hugmynd Bjarna Benediktssonar að selja Landsvirkjun – eða hluta hennar – til íslenskra lífeyrissjóða. Og að ýmsu leyti virðist hún álitleg.
Lífeyrissjóði bráðvantar hluti til að fjárfesta í. Það eru takmarkanir á því hvað þeir mega fjárfesta í útlöndum, þeir kaupa nú í stórum stíl íslensk ríkisskuldabréf – það er ekki svo margt annað í boði. Og þeir geta fjárfest á íslenskum hlutabréfamarkaði, en hætt er við því að það geti skapað verðbólur – eins og oft áður eru lífeyrissjóðirnir eins og fíll í stofu vegna stærðar sinnar.
Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir á vef Viðskiptablaðsins að til greina gæti komið að lífeyrissjóðir fengju að kaupa helmingshlut í Landsvirkjun – Bjarni talaði um þriðjungshlut. Helgi segir að ríkið þurfi ekki að eiga Landsvirkjun.
En það eru líka annmarkar á þessari hugmynd. Það er til dæmis talað um að salan gæti verið háð þeim skilyrðum að lífeyrissjóðirnir fengju ekki að selja hlutina áfram til annarra en ríkisins – ríkið myndi þá eiga forkaupsrétt.
Svo er það núverandi lágmarksávöxtunarkrafa lífeyrissjóða samkvæmt lögum. Hún er 3,5 prósent, eins óraunhæft og það kann að virðast. Getur Landsvirkjun staðið undir slíkri ávöxtun á fé lífeyrissjóða til langframa? Og ef ekki, myndi ríkið þá hafa bolmagn til að kaupa hlutina aftur – eða yrði þetta upptakturinn að almennri einkavæðingu fyrirtækisins?