Í síðustu skoðanakönnunum á fylgi flokkanna hefur Framsóknarflokkurinn verið nokkuð stöðugur. Hann er með fylgi í kringum 12 prósent. Það er svipað og flokkurinn fékk í síðustu kosningum og þýðir að flokkurinn verður flokkur af millistærð sem getur sloppið inn í ríkisstjórn – en það er þó alls ekki víst. Eins og staðan er núna gætu orðið þrír flokkar af svipaðri stærð á þingi, Framsókn, Björt framtíð og Vinstri grænir. Samfylkingin gæti orðið næstum tvöfalt stærri og Sjálfstæðisflokkur langstærstur.
Þetta er ekki alveg í samræmi við metnað Framsóknarflokksins sem áður fyrr var eitt af leiðandi öflunum í samfélaginu. Þrátt fyrir ákafa stjórnarandstöðu og tilfæringar eins og flutning formanns flokksins í Norðausturkjördæmi, skilar þetta sér ekki í auknu fylgi. Framsókn er eini fjórflokkurinn sem lofar því að gera eitthvað róttækt fyrir skuldara – Bjarni Ben sagði síðast nú um áramótin að taka yrði af þeim málum af „ábyrgð“ – en það virðist ekki heldur skila sér í fylgisaukningu.
Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem virðist græða á vandræðum ríkisstjórnarinnar – ekki Framsókn.
Framsókn hefur reyndar stundum bjargað sér með bröttum loforðum stuttu fyrir kosningar – eins og 90 prósenta lánunum árið 2003. Nú er langt um liðið að flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn og slík loforð gætu haft holan hljóm. Yfirboð varðandi skuldaúrræði gætu eins flæmt frá kjósendur og laðað þá til flokksins.
Og svo er það spurningin í hvaða átt Framsókn eigi að horfa. Eitt sinn var sagt að hún væri opin í báða enda. Menn hafa nánast tekið því sem gefnu að Framsókn færi í stjórn með Sjálfstæðisflokknum ef þessir flokkar ná meirihluta. Það er öruggt að sterkir bakhjarlar flokksins eins og Þórólfur Gíslason myndu vilja það. Hinn kosturinn er að lægja aðeins öldurnar milli Framsóknar og vinstri vængsins. Það hefur ríkt nánast hatursástand milli Sigmundar Davíðs og Jóhönnu. En eins og staðan er væri ekki einu sinni nóg að Framsókn gengi til liðs við Samfylkingu og Vinstri græn – það myndi þurfa fjórða flokkinn til að slík stjórn næði meirihluta.