Skatturinn sem deilt er um í Frakklandi átti að leggjast á tekjur umfram eina milljón evrur á ári – þ..e. um 170 milljón íslenskar krónur.
Nú hefur stjórnlagadómstóll ákvarðað að þessar fyrirætlanir standist ekki lög.
Um þetta hefur verið fjallað frá ýmsum hliðum, sumir segja að þarna sé á ferðinni ríkisstjórn sem sé haldin einhvers konar skattabrjálæði. Aðrir myndu segja að þeir sem hafa svo mikið milli handanna muni ekki um að borga þetta – meirihluti Frakka er hlynntur þessum skatti. Ein ástæða þess að Sarkozy, fyrrverandi forseti, var svo óvinsæll er sú hvað hann gerði sér dælt við ofurríkt fólk.
En svo er það auðvitað raunveruleikinn sem felst í því að þeir sem þéna slík auðævi geta flutt sig milli landa. Það hefur leikarinn Gérard Depardieu gert – hann er á leiðinni að verða rússneskur ríkisborgari, ef maður skilur rétt.
Forsætisráðherra Frakklands segir að þetta sé subbulegt hjá Depardieu, hann svarar því að Rússland sé merkilegt lýðræðisríki og að honum sé misboðið vegna ills umtals um sig.
Þetta hefur líka ákveðna mannlega hlið. Frakkar hafa haft mikið dálæti á gallagripnum Depardieu sem hefur verið frægasti leikari landsins í marga áratugi. Hann er ógurlegur lífsnautnamaður, drekkur og borðar mikið, á sjálfur vínekrur. Hann hefur stöðugt blásið út síðan hann varð fyrst frægur á áttunda áratugnum, nú er eitt frægasta hlutverk hans gaulverjinn Steinríkur.
Depardieu hefur áhuga á mótorhjólum – sem fer ekki sérlega vel saman við hin áhugamálin. Þeir hafa fyrirgefið honum margt, ölvun á ökutækjum, slagsmál, fyllerí og kjafthátt. En nú snýst málið um pólitík og þá horfir öðruvísi við.
Kannski ættu þeir sem mislíkar við hann að fagna því að hann flytji til Rússlands? Þar er jú einhver versti matur í heimi.
Svo ein lítil saga af því þegar ég hitti Depardieu:
Það var árið 2006, minnir mig. Ég stóð næstur honum í röð á flugvellinum í Istanbul. Röðin gekk hægt fyrir sig og við töluðum svolítið saman, vorum aðallega að tuða yfir þessu. Svo kom röðin að honum og konu sem hann var með – það var ekki hin undurfagra heitkona hans Carole Boquet – en þá var eitthvað vesen með passana hjá þeim og þau voru leidd bakvið af lögreglu.