Hinir nýju samskiptamiðlar breyta ýmsu í fjölmiðlun.
Maður missir stjórn á sér í flugvél, hann er bundinn og keflaður. Aðrir farþegar taka mynd af honum og setja á Facebook. Myndin berst loks út um allan heim, kemur í erlend stórblöð.
Maðurinn er nafngreindur – hann verður upp frá þessu flugdólgurninn með stóru F-i.
Fyrir fáum árum hefði þetta ekki verið staðan. Fréttin hefði sjálfsagt birst, en maðurinn hefði verið nafnlaus. Aðeins fáir hefðu vitað um athæfi hans.
Þetta er að sumu leyti skuggalegt. Maðurinn virðist hafa verið í skelfilegu drykkjukasti, nánast með deleríum tremens. Það er er eitt hæsta stig alkóhólisma, lýsir sér meðal annars í ofskynjunum. Það er mjög slysalegt ef maður í slíku ástandi nær að komast um borð í flugvél. Ef marka má hegðun hans er hann fársjúkur alkóhólisti. Enda var honum komið undir læknishendur í New York.
Það afsakar ekki það sem hann gerði – en það er glöggt dæmi um hinn nýja fjölmiðlaveruleika að mynd hans og nafn skuli hafa borist út um allan heim á fáum dögum.