Hinn bráðskemmtilegi vefur Lemúrinn birtir þessa mynd af listamanninum Muggi. Myndin er tekin af Magnúsi Ólafsssyni um 1920. Muggur hét í rauninni Guðmundur Thorsteinsson. Hann var fæddur 1891 og andaðist 1924, aðeins 33 ára. Það stafar ljóma af minningu hans, hann var listrænn og fjölhæfur, fékkst við málverk, myndskreytingar og sagnagerð, auk þess að leika aðalhlutverk í kvikmyndinni Borgarættinni.
Myndin er skemmtileg, ekki síst vegna þess hvað hún vísar fram í tímann. Maður sér ekki betur en að Muggur sé með bítlahárgreiðslu, hann er í támjóum skóm – og sígarettan er ansi töffaraleg.