Nýjasti Þjóðarpúls Gallups stafestir það sem ég hef haldið fram – Björt framtíð tekur ekki fylgi frá Sjálfstæðisflokknum heldur dreifist fylgið á vinstri vængnum enn víðar vegna tilkomu hennar. 12 prósent í skoðanakönnun er góður árangur hjá flokknum þegar fjórir mánuðir eru til kosninga, því verður ekki neitað. Flokkurinn er með vind í seglin, ólíkt hinum nýju flokkunum.
Samstaða virðist vera alveg út úr myndinni með 1,3 prósent, Píratar hafa 2,5 prósent, Dögun 3 prósent og Hægri grænir 2,5 prósent – þeir eru eini flokkurinn af þessum sem aðhyllast yfirlýsta hægristefnu. Enginn af þessum flokkum myndi ná mönnum inn á þing við þessar aðstæður.
Allt styrkir þetta fremur Sjálfstæðisflokkinn. Hannfær kannski ekki þessi 36,3 prósent sem honum er spáð í kosningum, en eins og staðan er þyrftu Samfylking og VG að fá með sér tvo flokka í ríkisstjórn til að geta haldið áfram – bæði Framsókn og Bjarta framtíð.
Það virkar heldur ólíklegt að sú gæti verið niðurstaðan.
En Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru ekki langt frá því að ná hreinum meirihluta. Verði sú raunin þarf ekki að spyrja að leikslokum.