Vef-Þjóðviljinn var eitt sinn vinsæll vefur og ekki síst áramótauppgjör hans. Þau snerust mörg um að gera grín að Ólafi Ragnari Grímssyni frá ýmsum hliðum – hann var um árabil sérstakur skotspónn Andríkis, hópsins sem heldur úti þessum vef. Það er kannski ofmælt að hann hafi verið tekinn í sátt á þessum bæ – en andúðin á honum er ekki alveg jafn stæk og áður.
Áramótauppgjör Vef-Þjóðviljans birtist reyndar enn – það má sjá með því að smella hérna.
Alþingisvaktin er nýlegur vefur sem þessi áramót birtir uppgjör sem er með sama sniði og það sem hefur birst í Vef-Þjóðviljanum. Nálgunin á pólitíkina er þó allt önnur –nema ef skyldi vera að þarna er spjótum beint að Ólafi Ragnari. Skríbent Alþingisvefsins virðist vera sérstaklega í nöp við Árna Pál Árnason. Báðir þessir vefir eru þess eðlis að nöfn höfunda greina koma ekki fram – það er til lítils sóma.
En hvort er svo fyndnara, uppgjörið hjá Vef-Þjóðviljanum eða Alþingisvaktinni?