fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2024
Eyjan

Ríkisútvarpið – þrjú sjónarhorn

Egill Helgason
Sunnudaginn 7. desember 2014 12:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér á Eyjunni virðist það vera de rigeur að birta rausið úr ritstjóra Morgunblaðsins hvenær sem hann skrifar um Ríkisútvarpið. Núorðið gerist það næstum á hverjum degi. Ritstjórinn er með Ríkisútvarpið á perunni.

Síðasta Reykjavíkurbréf er ákveðinn toppur – þótt persónuleg met séu slegin þar nánast í hverri viku.

Þar segir frá því að Ríkisútvarpið hafi verið fjarskalega frábært á tímanum þegar ungur maður sem hét Davíð Oddsson var með þátt sem hét Útvarp Matthildur og fékk svo að stjórna þætti með sjálfum Stefáni Jónssyni.

Þetta var greinilega mikið blómaskeið. En síðan hefur hallað undan fæti og nú er Ríkisútvarpið ömurlegt.

— —  —

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, mikill menningarmaður, skrifar á Facebook um Ríkisútvarpið:

Var að hugsa um Rúv: Fyrir sextán árum unnum við Þorgeir Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður þrjá klukkustundar langa þætti um Halldór Laxness sem frumsýndir voru í Ríkissjónvarpinu í vikunni eftir að hann lést og rifjuðu upp fyrir almenningi ævi og störf okkar mikilhæfasta rithöfundar. Aðferð þáttanna var sú að láta Halldór sjálfan segja sögu sína með því að klippa saman svör hans úr ótal viðtölum, fréttum og þáttum sem Rúv hafði látið gera í gegnum tíðina. Þetta voru um það bil 25 klukkustundir af efni sem við unnum úr, auk þess sem við fengum frá erlendum sjónvarpsstöðvum. Sem minnir á að fyrir utan að vera þarfur fjölmiðill og hýsa mikilvæga fréttastofu, er Ríkisútvarpið eins konar menningarlegt minni þjóðarinnar, ómetanlegt þjóðminjasafn samtímans í hljóði og mynd. Minni, menning, saga: þetta eru forsendur lýðræðis og krítískrar hugsunar. Sem er ein af ástæðum þess að það á að skapa Rúv sterkan og varanlegan rekstrargrundvöll.

— — —

Og Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari Skálmöld, segir að sveitin hafi fyrst fengið spilun í Ríkisútvarpinu. Greinin birtist í Herðubreið og nefnist Ekki eyðileggja Ríkisútvarpið froðusauðir (gott orð):

Við fórum þessar venjulegu leiðir, höfðum samband við þá sem gætu haft áhuga innan kreðsunnar sem gekk upp og ofan, og reyndar meira ofan. Einn daginn fékk ég svo símtal. Á hinum endanum var dagskrárgerðarmaður á Rás 1 sem bauð mér að koma í þáttinn Víðsjá til að spjalla um þetta uppátæki. Útgangspunkturinn var textagerðin, þessi kannski óvenjulega nálgun að splæsa gamaldags kveðskap saman við þungarokk.

Frábært. Ég mætti í þáttinn og átti gott spjall en grunaði ekki að maðurinn ætlaði að virkilega að spila nema þá mögulega lítið brot. En nei, heilt lag skyldi það vera. Viti menn, þarna hljómaði Skálmöld fyrst í útvarpi og það á Rás 1! Síðan þá höfum við haft þá venju að frumflytja fyrsta lag af hverri Skálmaldar-plötu í Víðsjá. Þau hafa alltaf tekið okkur vel og þess óska ég að verði áfram.

Þetta varð vendipunktur og þarna fóru hjólin að snúast, en ekki endilega þau hjól sem við höfðum búist við. Í stað þess að hinir hefðbundnu rokkmiðlar tækju okkur upp á sína arma var það RÚV sem gerði það. Við fengum umfjöllun í Kastljósi sem reyndist afskaplega dýrmæt og síðan kom Rás 2 sterkust inn. Enn í dag er það þannig að Skálmöld hefur hvergi fengið meiri spilun en á Rás 2 og ég sé það ekki breytast.

Við höfum vissulega aldrei farið í daglega öfgaspilun en það er heldur ekkert undarlegt. Við erum ekki dægurlagahljómsveit og áreitið passar kannski ekki endilega inn í dagskrá fyrir alla landsmenn alla daga. Eða jú, í passlegum skömmtum. Þetta er sanngirni og fyrir það erum við afskaplega þakklátir.

Skálmöld byggir á þessum grunni, svo einfalt er það. Þarna tók okkur áhugasamt og sjálfstætt hugsandi fólk sem hefur það eitt að markmiði að miðla því sem gott er og áhugavert, jafnvel þótt efnið sé fljótt á litið allt annað en aðgengilegt eða líklegt til vinsælda. Og nú er ég ekki bara að tala um tónlist heldur alla menningar- og þjóðarflóruna. Þetta er vettvangurinn fyrir alla til að koma sínu að og fyrir hina að meðtaka. Metnaðarfull dagskrárgerð um alla kima mannlífsins, ekki bara froðusnakk um fríar flatbökur og vinsældalista erlendis, um það hverfist RÚV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Mjúk lending að hætti AGS – vaxtalækkun eftir ár, kannski

Svarthöfði skrifar: Mjúk lending að hætti AGS – vaxtalækkun eftir ár, kannski
Eyjan
Fyrir 1 viku

Borgin heldur áformum um flugvöll í Hvassahrauni til streitu og Njáll Trausti furðu lostinn – „Enginn pólitíkus á íslandi er að fara að skrifa upp á það“

Borgin heldur áformum um flugvöll í Hvassahrauni til streitu og Njáll Trausti furðu lostinn – „Enginn pólitíkus á íslandi er að fara að skrifa upp á það“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu