fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Eyjan

Alvarleg bilun í vélarrúmi kapítalismans

Egill Helgason
Föstudaginn 24. október 2014 12:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýju hefti Der Spiegel er fjallað um það hvernig kapítalisminn hefur farið af hjörunum. Við lifum tíma þegar kapítalistar eru í raun verstu óvinir kapítalismans.

Einn helsti vandi kapítalismans í dag – og sumum þeim sem mest auðgast er kannski skítsama um þetta – er að auðurinn er ekki að dreifast um hin ýmsu lög samfélagsins. Spiegel segir að meira að segja sé farið að ræða þetta á fundum auðmanna í Davos og í höfuðstöðvum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Þetta eru aðrir tímar en var eftir hrun Berlínarmúrsins þegar hraðlest kapítalismans virtist óstöðvandi og Francis Fukuyama spáði „endalokum sögunnar“. Nú lifum við tíma mikillar óvissu þar sem vantraust á stjórnmál er útbreitt og grunsemdir um að við lifum í raun við auðræði – eða í „eins prósents samfélaginu“ eins og er líka farið að kalla það.

Stöðnun blasir við í efnahag Vesturlanda. Seðlabankar hafa ekki meira fé til að örva hagkerfin – alls staðar blasa við skuldafjöll. En á sama tíma hækkar húsnæðisverð og verð á hlutabréfamörkuðum – semsagt á sviðum þar sem er stunduð spákaupmennska. Kannski getur það ekki endað með öðru en nýju hruni.

En þeir sem eiga fjármagn verða ríkari, þeir sem geta látið peningana vinna fyrir sig, auðurinn safnast á færri hendur. En sjálf framleiðslan er ekkert að aukast, laun lækka eða standa í stað, hefðbundið sparifé gefur ekkert af sér.

Der Spiegel segir að þetta sé til marks um alvarlega bilun í vélarrúmi kapítalismans. Bankar og fjárfestingafélög tryggðu hér áður fyrr að sparifé væri breytt í tækninýjungar, vöxt og ný störf. Í dag gegna þau því hlutverki að færa fjármagn frá neðri lögum samfélagsins upp í þau efstu.

Þetta er eins og að búa í blokk þar sem þakíbúðin verður sífellt stærri, á neðstu hæðunum er alltof margt fólk og mikil þrengsli, en miðhæðirnar eru tómar og lyftan virkar ekki lengur.

Lýðræðið er líka í kreppu vegna þessa. Er ríkjum stjórnað af þjóðþingum og ríkisstjórnum – eða er það peningavaldið sem hefur síðasta orðið. Bankarnir geta í raun hegðað sér eins og sjálfmorðssprengjumenn. Sé hagur þeirra ekki í fyrrirúmi og þeim bjargað, þá býr undir hótunin um að draga allt kerfið niður með sér.

Hinn þekkti fjármálablaðamaður á Financial Times, Martin Wolf, kallar þetta ofurvald fjármálamarkaðanna „samning við djöfullinn“. Meira að segja sannfærðum markaðshyggjumönnum er illa brugðið.

image-765069-thumbflex-cqsi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan