Við erum á eyju þar sem maður kveikir aldrei á sjónvarpi – undan tölvunum kemst maður ekki alveg núorðið.
Hér eru engir bílar í þorpinu. Krakkar hlaupa hér um og maður þarf ekki að óttast neitt. Helst að þau fari of nálægt klettunum sem ná niður í sjó, en þau hafa lært að gera það ekki.
Fólk er umburðarlynt og gamansamt við börnin.
Það er ekkert tívolí, enginn vatnagarður, engar stórverslanir eða neitt slíkt.
Nokkur veitingahús í fjölskyldueigu sem selja fremur einfaldan grískan mat – fjölskyldan getur borðað vel fyrir innan við þrjátíu evrur.
Krakkarnir bjarga sér sjálfir við leiki sína. Það er engin utanaðkomandi skemmtun í boði. Þetta er ekki vandamál, nei, síður en svo, eyjan er eins og paradís fyrir þau.
Þetta er staður þar sem gullnar bernskuminningar verða til.