Mikill stuðningur í Bandaríkjunum að meina fólki frá svæðum þar hryðjuverkasamtök eru fyrirferðamikil að koma til landsins og vill meirihluti Bandaríkjamanna að innflytjendur frá löndum þar sem múslimar eru í meirihluta þurfi að skrá sig sérstaklega. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Quinnipiac-háskóla, sem gerð var á landsvísu í Bandaríkjunum, RÚV greindi frá þessu í dag.
Könnunin var gerð dagana 5. – 9. janúar á þessu ári og voru 899 manns spurðir um afstöðu sína í málinu, skekkjumörk eru 3,3 prósentustig. Quinnipiac-háskóli er með A- í einkunn hjá vefnum FiveThirtyEight með 87% nákvæmni í tengslum við forsetakosningarnar Vestanhafs síðastliðið haust.
Samkvæmt könnuninni vilja 48% Bandaríkjamanna banna fólki frá löndum þar sem hryðjuverkasamtök eru fyrirferðarmikil að koma til landsins, en 42% eru því mótfallin. 52% töldu að að innflytjendur frá löndum þar sem múslímar eru í meirihluta ættu að þurfa að skrá sig sérstaklega en 41% voru á móti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tímabundið bannað fólki með ríkisfang í Íran, Sýrlandi, Írak, Jemen, Lýbíu, Sómalíu og Súdan að ferðast til Bandaríkjanna, hefur tilskipun hans fallið í grýttan jarðveg víðs vegar um heiminn og hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra komið á framfæri formlegum mótmælum íslenskra stjórnvalda gegn tilskipuninni.