Bretland mun yfirgefa innri markað Evrópusambandsins á sama tíma og öll sambærileg tengsl við sambandið verða rofin þegar Bretland gengur úr ESB. Þetta fullyrða breskir miðlar að komi fram í ræðu Theresu May forsætisráðherra Bretlands sem hún heldur síðar í dag. Ræðunni hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en þar mun May útlista ferlið sem Bretland fer í gengum við úrsögnina úr ESB.
BBC segir að búist sé við því að formlegar viðræður Breta við ESB hefjist í mars en talið er að þær geti tekið allt að tvö ár.
Ef heimildir miðlanna reynast réttar þá mun May hafna allri aukaaðild að ESB, þar á meðal aðild að EES. Er talið að May setji herta innflytjendalöggjöf að sínu helsta forgangsverkefni. Ljóst er að markaðir munu fylgjast vel með því sem May segir í ræðu sinni í dag, en gengi breska sterlingspundsins lækkaði á sunnudaginn.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is