fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Eyjan

Þjóðernisflokkar blása til sameinaðrar leiftursóknar í Evrópu

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 16. janúar 2017 22:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

39b50825-4fb8-494c-ab11-0f141cccc540
„Evrópa þjóða og frelsis“. Þannig kynna leiðtogar helstu þjóðernisflokka Evrópa sig til sameiginlegrar baráttu í kosningum sem fara fram í mörgum löndum álfunnar síðar á þessu ári. Frá vinstri: Matteo Salvini frá Norðurbandalaginu í Ítalíu, Marine Le Pen frönsku Þjóðfylkingunni, Frauke Petry og Marcus Pretzell frá Valkosti fyrir Þýskaland og Geert Wilders formaður Frelsisflokksins í Hollandi.

Flokkar sem iðulega eru skilgreindir yst til hægri á litrófi stjórnmálanna í Evrópu ætla nú að leggja á ráðin um sameiginlega baráttu fyrir auknum völdum í álfunni á nýju ári. Þessir flokkar eru gjarnan kallaðir „hægri-lýðskrumflokkar“ eða „hægri-öfgaflokkar“. Þeir eiga það helst sameiginlegt að hneigjast til þjóðernisstefnu og vera andvígir alþjóðavæðingu, Evrópusambandinu og innflytjendastefnu landa innan þess.

Þessi stjórnmálaöfl hyggjast nú reyna að nýta sér vinda sem forystufólk þeirra væntir að blási frá Bandaríkjunum í kjölfar þess að Donald Trump tekur við embætti forseta næstkomandi föstudag. Það er engin tilviljun að daginn eftir að Trump sver eið sem 45. forseti Bandaríkjanna hittist forystufólk þjóðernisflokka Þýskalands, Frakklands, Hollands og Ítalíu á sameiginlegri ráðstefnu sem haldin verður í Koblenz í Þýskalandi. Þar verður barið á stórtrommurnar, strengir stilltir saman og blásið til sameiginlegrar baráttu þessara flokka til að ná völdum í þessum fjórum af stærstu löndum Evrópu síðar á nýhöfnu ári.

Höfuðmarkmiðið verður að Marine Le Pen formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar nái kjöri sem forseti Frakklands í vor. Hún mælist nú með rúmlega 20 prósenta fylgi í það embætti. Af hálfu evrópskra þjóðernissinna verður hendinni heldur ekki slegið gegn því að Geert Wilders og Frelsisflokkur hans vinni stórsigur í hollensku þingkosningunum sem fara fram 15. mars. Jafnvel eru væntingar um að hann verði forsætisráðherra Hollands að þeim afstöðnum. Það gæti verið raunhæfur möguleiki þar sem Frelsisflokkurinn mælist með 35 prósenta fylgi í nýjustu könnunum.

609aaa93-1762-44d4-9b5e-ac05dc374288
Marine Le Pen formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar og Geert Wilders formaður hollenska Frelsisflokksins hafa náð mjög vel saman í störfum sínum á Evrópuþinginu. Þeim virðist vel til vina. Bæði segjast ætla að beita sér fyrir því að lönd þeirra segi sig úr Evrópusambandinu nái þau völdum.

Sömuleiðis hyggja þjóðernissinnar sér gott til glóðarinnar þegar kosið verður til þýska Sambandsþingsins í haust. Þar leiðir Frauke Petry flokkinn Valkostur fyrir Þýskaland. Sá flokkur hefur haft góðan og aukinn meðbyr í skoðanakönnunum og gæti ógnað stöðu Angelu Merkel kanslara.  Í Ítalíu eru það svo Norðurbandalag Silvios Berlusconi og Fimm stjörnu fylkingin undir forystu Beppe Grillo sem líta valdastólana hýrum augum.

Ysta hægrið í Evrópu hefur til þessa átt erfitt með að ná saman þvert á landamæri landa álfunnar en nú virðist breyting verða þar á. Efnahagsörðugleikar og vandræði evrunnar, útganga Breta úr Evrópusambandinu, ótti við hryðuverkaógn íslamista og flóttamannastraumur eru allt þættir sem leiða þessa flokka nú saman undir vígorðunum „Frelsi fyrir Evrópu“, sem verða einkennisorð ráðstefnunnar í Koblenz á laugardag.

Bæði Marine Le Pen og Frauke Petry munu hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum upp á síðkastið með áskorunum um að þjóðernissinnar Evrópu fjölmenni nú til Koblenz um næstu helgi. Sem andsvar við þessu hafa vinstrimenn bitið í skjaldarrendur með heitingum um að þeir muni líka flykkjast til Koblenz til að mótmæla „hægri-öfgaflokkunum“.

Þarna má reikna með að mætist stálin stinn. Þýska lögreglan hefur boðað mikinn viðbúnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar með meiri kaupmátt en við!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar með meiri kaupmátt en við!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Ræður risastóri hópurinn – LAUSAFYLGIÐ – úrslitum?

Orðið á götunni: Ræður risastóri hópurinn – LAUSAFYLGIÐ – úrslitum?