Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar segir enga ástæðu til að flýta sölu á bönkunum og það sé í góðu lagi ef söluferli ríkisins taki tíu ár. Í pistli sem ráðherra ritar á vefsíðu Viðreisnar segir Benedikt að hann geti vel ímyndað sér að 13% hlutur ríkisins í Arion Banka verði seldur fyrst en vanda þurfi vel til verka, Kaupþing sem á 87% hlut í bankanum hefur söluferlið í bankanum um páskana og þegar þau hlutabréf fara á markað verði mun auðveldara en ella að átta sig á verði og eftirspurn:
Hugsanlegt er að þessi hlutur verði seldur á yfirstandandi ári, en alls ekki víst. Ég sé ekki að markaður verði fyrir fleiri bankahlutabréf hér innanlands í ár þannig að hinir bankarnir bíða. Ef söluferlið tekur tíu ár er það í góðu lagi og betra en að skapa óróa með óvönduðum vinnubrögðum,
segir Benedikt. Í eigendastefnu stjórnvalda er gert ráð fyrir að ríkið komi til með að eiga á milli 34% til 40% í Landsbankanum. Ekki hefur verið ákveðið hvernig staðið verður að sölu eigna ríkisins í hinum bönkunum tveimur, en ríkið á 98,2% í Landsbankanum og Íslandsbanka að öllu leyti. Leggur Benedikt áherslu á að salan verði í opnu ferli, um hana muni ríkja sátt og að ríkið fái gott verð:
Ég átta mig vel á því að þetta mun taka tíma og mér dettur ekki í hug að setja hlutina alla á markað núna strax. Verðmætin eru mikil, nálægt 400 milljörðum króna líklega, og því eftir miklu að slægjast til þess að lækka skuldir ríkisins um slíka fjárhæð.