Donald Trump hélt um það bil fimm stundarfjórðunga langan blaðamannfund fyrr í kvöld að íslenskum tíma.
Augljóst er að forsetinn er enn í kosningaham. Hann var stóryrtur um andstæðinga sína og fjölmiðla sem hann sakar um að flytja ítrekað hatursfullar og falskar fréttir af sér og sínu fólki.
Trump atyrti fréttamenn sem honum þótti koma með vondar spurningar en hrósaði hinum sem „spurðu rétt.“
Forseti Bandaríkjanna sagðist vera heimsins minnsti kynþátta- og gyðingahatari.
Ég er engin vond manneskja. Ég færi ykkur góðar áhorfstölur, viðurkennið það bara.
Forsetinn sagðist kominn á blaðamannafundinn til að upplýsa bandarísku þjóðina um árangur sinn eftir 27 daga í embætti. Honum var samt tíðrætt um frammistöðu fjölmiðla frá því hann tók við embætti:
Ég hygg að enginn forseti hafi náð jafn miklum árangri á svo stuttum tíma eins og og ég. En fjölmiðlar fjalla ekki um það…Ég virði kannski enga meir en góða fréttamenn. En til að mynda hjá CNN er svo mikil reiði og hatur. Ég er hættur að horfa á. Ég hef ekkert á móti fréttum sem ekki eru mér í hag, svo lengi sem þær eru sannar…Ég vil fá að sjá heiðarlega fjölmiðla. Almenningur trúir ykkur ekki lengur. Kannski hef ég eitthvað með það að gera, ég veit ekki. En ef þið hélduð ykkur bara við að segja sannleikann þá væri ég stærsti aðdáandi ykkar.
Þegar Trump var spurður um tengsl sín við Rússland hrópaði hann:
Þögn, þögn, þögn!
Forsetinn sagði svo að hann hafi sjálfur aldrei hringt til Rússlands, hann sór af sér öll tengsl við Rússa og sagðist bara hafa svarað símtölum sem hann fékk frá Vladimir Pútín. Fyrst þegar hann vann forsetakosningarnar og síðan eftir að hann tók við embætti forseta.
Donald Trump sagði í lok blaðamannafundarins að hann hefði fengið algeran glundroða í arf eftir stjórn Baracks Obama forvera síns.
Alger glundroði. Út um allt. Í Miðausturlöndum, í Norður-Kóreu. Við ætlum að koma lagi á þetta allt saman, gott fólk…Ég ætla ekki að tala um hvað ég kem til með að gera. Ég tala ekki um heraflann, ég kem ekki til með að segja til um hvort við höldum inn í Sýrland. Ég sagði þetta alla kosningabaráttuna. Ég þarf ekki að segja hvað ég ætla að gera í Norður-Kóreu, og ég þarf ekki að segja hvað ég ætla að gera í sambandi við Íran.
Forsetinn upplýsti einnig að að í næstu viku muni hann undirrita nýja tilskipun sem snýr að innflytjendamálum.
Það eiga eftir að gerast stórir hlutir.
Áætlanir um múrinn á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó verða framkvæmdar.
Það verður flottur múr sem á eftir að virka. Þetta verður ekki eins og núna þar sem enginn múr er til staðar eða eitthvað sem er algert klúður.
Fréttamaður SKY-News sjónvarpsfréttastöðvarinnar, sem eins og fjölmargar aðrar sendi allan fundinn út í beinni útsendingu, hafði á orði að honum loknum að þarna hefði vísast átt sé stað óvenjulegasti blaðamannafundur forseta Bandaríkjanna í manna minnum.