Lagt verður til að hluthafar í Borgun fái greiddan allt að 4,7 milljarða króna arð á stjórnarfundi félagsins á morgun. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er búið að kynna helstu hluthöfum tillöguna og þeir hafa ekki mótmælt, verður gengið út frá því að tillagan verði samþykkt einróma þar sem hagnaður Borgunar var nærri 8 milljarðar króna í fyrra og því gangi arðgreiðslan ekki nærri félaginu.
Íslandsbanki, sem er í eigu ríkisins, á 63,47% hlut í Borgun, Eignarhaldsfélagið Borgun er skráð fyrir 29,38% hlut og BPS er skráð með 5% hlut. Íslandsbanki fær því greidda frá Borgun rúma þrjá milljarða, Eignarhaldsfélagið Borgun fær 1,4 milljarða og BPS 235 milljónir. Í fyrra voru greiddir 2 milljarðar í arð.
Landsbankinn hefur stefnt stefnt Borgun hf., forstjóra Borgunar hf., BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. Krefst bankinn viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna sölunnar á Borgun. Erfitt hefur verið að meta þær fjárhæðir sem Landsbankinn fór á mis við, en fram kemur í svartri skýrslu ríkisendurskoðunar að hagnaður Borgunar, alls um 6,2 milljarðar króna, varð að nokkru leyti til eftir sölu eignarhlutar Borgunar í Visa Europe.