Fréttaflutningur bandaríska stórblaðsins New York Times um að fjölmargir af fremstu ráðgjöfum Donalds Trump í kosningabaráttunni hafi átt ítrekuð samtöl við rússneska leyniþjónustumenn í heilt ár fyrir forsetakosningarnar í nóvember sl. valda nú titringi í höfuðborginni Washington DC og víðar í Bandaríkjunum.
Þessar upplýsingar bæta gráu ofan á svart eftir að Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins, sagði af sér embætti í byrjun vikunnar. Ástæðan var að hann varð uppvís að tengslum við Rússa og leynimakki við sendiherra Rússa í Bandaríkjunum áður en Trump settist í forsetastólinn. Flynn ræddi meðal annars viðskiptaþvinganir og fleiri refsiaðgerðir sem Bandaríkjamenn beittu sér fyrir gegn Rússum.
Eftir afsögn Flynn sendi John McCain öldungardeildarþingmaður repúblikana og fyrrum forsetaframbjóðandi frá sér fréttatilkynningu á þriðjudag þar sem meðal annars sagði að brotthvarf þjóðaröryggisrágjafans:
…væri tilefni þess að spyrja fleiri spurninga varðandi fyrirætlanir Trump-stjórnarinnar gagnvart Rússlandi Vladimir Pútíns.
Upplýsingar New York Times komu fram aðeins sólarhring síðar. Þær byggja á viðtölum við fjóra núverandi eða fyrrverandi embættismönnum úr bandarísku stjórnsýslunni. Bandarískir leyniþjónustumenn munu hafa komist á snoðir um að fjöldi starfsmanna í kosningabaráttu Trump voru í reglulegu sambandi við rússneska leyniþjónustumenn í aðdraganda kosninganna. Þetta kom í ljós þegar leyniþjónustur Bandaríkjanna stunduðu hleranir á Rússum til að grennslast fyrir um það hvort þeir væru að reyna að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar.
Í þessu samhengi er nú rifjað upp að Donald Trump hvatti Rússa til þess á blaðamannafundi í fyrrasumar að þeir brytust inn í tölvupóstþjón Hillary Clinton. Trump hefur líka ítrekað talað vinsamlega um Pútín og jafnvel hrósað honum í hástert:
Great move on delay (by V. Putin) – I always knew he was very smart!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 30, 2016
Það þykir ekki góð latína í augum margra háttsettra bandarískra sjórnmálamanna að gæla við Rússa. Í því samhengi er fréttaflutningur um að kosningavél Trump hafi jafnvel verið beintengd við undirróðursmenn á vegum stjórnvalda í Krem, nokkuð sem er eins og olía á eld.
Fréttaritari norska Aftenposten skrifar að demókratar kalli nú eftir óháðri rannsókn á þessu máli og að sumir þingmenn repúblikana séu í vaxandi mæli farnir að ókyrrast.