Alþjóðlegi lyfjarisinn Teva tilkynnti í morgun um umfangsmiklar skipulagsbreytingar. Forstjóri samstæðunnar lætur af störfum, þar sem stjórn fyrirtækisins telur hann ekki njóta trausts fjárfesta, en hlutabréf félagsins hafa hríðfallið á mörkuðum að undanförnu.
Sigurður Óli Ólafsson sem var forstjóri samheitalyfjasviðs fyrirtækisins var nýlega látinn taka poka sinn, en félagið tók yfir rekstur íslenska lyfjafyrirtækisins Actavis fyrir skemmstu.
Hlutabréf lyfjafyrirtækisins Teva halda áfram að falla og hafa þau nú lækkað um tæplega helming á síðustu 12 mánuðum. Teva er í hópi stærstu lyfjafyrirtækja heims og hefur vaxið mikið í gegnum skuldsettar yfirtökur.
Rekstur fyrirtækisins hefur ekki staðist væntingar fjárfesta ef marka má viðbrögð fjárfesta. Þrátt fyrir mikinn vöxt hefur markaðsvirði þess lækkað um rúmlega 30 milljarða bandaríkjadala eða um ríflega 3,400 milljarða íslenskra króna.