fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Stjórnendur 400 stærstu á Íslandi: Góðar aðstæður í efnahagslífinu

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 29. mars 2017 09:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að mati stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins eru góðar aðstæður í efnahagslífinu um þessar mundir, nokkru munar þó á mati stjórnenda útflutningsfyrirtækja og annarra.Þetta sýnir ný könnun Gallup sem gerð var fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands og birt er í dag á vef SA.

Vel innan við helmingur fyrirtækjanna finnur fyrir skorti á starfsfólki sem er svipuð niðurstaða og undanfarið ár. Búast má við tæplega 2% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum eða sem nemur rúmlega tvö þúsund störfum.

Stjórnendur búast við 2,5% verðbólgu á næstu 12 mánuðum, nánast óbreyttu vöruverði fyrirtækjanna sem þeir stýra en að innlend aðföng hækki um tæplega 1%.


Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er enn nálægt hámarki eins og undanfarin tvö ár. Tæplega 80% stjórnenda telur aðstæður í atvinnulífinu góðar, en einungis 3% að þær séu slæmar. Niðurstöður fyrir  útflytjendur vöru og þjónustu eru svipaðar þar sem 75% stjórnenda í þeim greinum telja aðstæður góðar en 6% slæmar.

Telja að aðstæður gætu batnað

Stjórnendur eru almennt sammála um að staðan í atvinnulífinu verði betri eða jafngóð eftir sex mánuði. 24% telja að aðstæður batni, 63% að þær verði óbreyttar en 13% að þær versni. Í hópi  stjórnenda útflutningsfyrirtækjanna telja 20% að þær batni, 63% að þær verði óbreyttar og 17% að þær versni.

undefined
Skortur á starfsfólki er svipaður og í síðustu könnunum og telja nú 39% stjórnenda skort ríkja á starfsfólki. Skorturinn er langmestur í byggingariðnaði þar sem yfir 90% stjórnenda telur starfsfólk skorta og þar á eftir kemur iðnaður þar sem 55% stjórnenda telur svo vera. Minnstur skortur á starfsfólki er í fjármálastarfsemi og ferðaþjónustu.

Starfsmönnum gæti fjölgað um mikið á næstunni

25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 35% stjórnenda þeirra sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 8% sjá fram á fækkun en 57% búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin með stærð fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum þeirra fjölgi um 1,7% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna markaðinn í heild má búast við störfum þar fjölgi um 2.100 á næstu sex mánuðum. Sem fyrr er búist við langmestri fjölgun í byggingarstarfsemi, ferðaþjónustu og iðnaði.

undefined

Óbreyttur hagnaður á þessu ári

Jafn margir stjórnendur búast við að hagnaður aukist og að hann minnki á þessu ári samanborið við síðasta ár.  27% stjórnenda búast við að hagnaður fyrirtækjanna sem þeir stjórna, sem hlutfall af veltu, aukist milli ára, en 27% að hann minnki og 45% að hann verði óbreyttur. Tveir af hverjum þremur stjórnendum í sjávarútvegi búast við minnkandi hagnaði.

Tæplega 60% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum en einungis 3% að hún minnki. Búist er við mestri aukningu eftirspurnar í byggingariðnaði, síðan í fjármálastarfsemi en þar á eftir koma verslun og flutningar og ferðaþjónusta. 40% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn á erlendum mörkuðum en 9% að hún minnki.

Fjárfestingar aukast á árinu

Stjórnendur í öllum atvinnugreinum nema sjávarútvegi búast við auknum fjárfestingum á árinu. Þriðjungur stjórnenda telja fjárfestingar aukast á árinu en 20% að þær minnki. Flestir stjórnendur í iðnaði búast við aukningu, en þar á eftir koma þjónustugreinar.

undefined

Vænta lækkunar á vöxtum Seðlabankans

Stjórnendur vænta þess að Seðlabankinn lækki veðlánavexti sína á næstunni. Veðlánavextirnir eru nú 5,75% og er búist við því að þeir verði komnir í 5% eftir eitt ár. Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi  krónunnar styrkist um 1,2% næstu 12 mánuði. 

Verðbólguvæntingar stjórnenda eru við verðbólgumarkmiðið. Stjórnendur vænta að jafnaði 2,5% verðbólgu næstu 12 mánuði sem er 0,5% hækkun frá könnuninni sl. haust. Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,0% eftir tvö ár sem er sama niðurstaða og í síðustu könnunum. Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 0,2% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 0,9%.

undefined

Könnunin var gerð dagana 14. febrúar til 3. mars og voru spurningar 19. Í úrtaki voru 393 fyrirtæki sem teljast stærst miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 216, þannig að svarhlutfall var 55%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka