Mikil spenna í loftinu í Frakklandi þessa dagana en fram undan eru forsetakosningar þar. Fyrsta umferð þeirra fer fram þann 23. apríl næstkomandi og er óhætt að segja að ráðamenn í Evrópu, sérstaklega í Brussel, haldi niðri í sér andanum. Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar nýtur mikils fylgis ef marka má skoðanakannanir og allt bendir til þess að hún og Emmanuel Macron, miðjumaður og fyrrum efnahagsráðherra Frakklands muni komast í síðari umferð forsetakosninganna. Hann hefur þó aldrei boðið sig fram til embættis áður og margt getur gerst á næstu vikum. Kosningabaráttan er hafin fyrir alvöru og er skammur tími til stefnu. Það má því lítið út af bera hjá frambjóðendunum á næstunni ef þeir vilja ná árangri.
Í forkosningum Sósíalista og Repúblikana voru haldnar haldnar kappræður sem sýndar voru á besta tíma í sjónvarpi og þykir mörgum það vera til merkis um áhrif frá kosningabaráttunni í Bandaríkjunum. Afleiðingarnarnar voru þær sömu í báðum flokkum, þeir frambjóðendur sem teflt var fram af ráðandi öflum innan flokkanna féllu flatt í kappræðunum. ,,Utanaðkomandi“ frambjóðendur náðu betur að fanga tíðarandann og báru að lokum sigur úr býtum í forkosningum flokkanna beggja.
Eins og sakir standa eru Le Pen og Macron með um 26% fylgi samkvæmt könnunum. Það ætti að vera nóg til að koma þeim báðum í aðra umferð forsetakosninganna. Kannanir benda síðan til þess að í tveggja manna slag myndi Macron bera sigur úr býtum. Það er þó ekki svo einfalt því stuðningsmenn Le Pen eru mun fastari fyrir í sinni afstöðu en þeir sem segjast styðja Macron. Margir sem segjast ætla að kjósa hann eru ekki mjög vissir í sinni sök og því eru kappræðurnar ef til vill vandasamari fyrir hann en Le Pen, misstigi hann sig alvarlega þar er hugsanlegt að fylgi hans falli mikið.
Sannkallaðar maraþon kappræður voru haldnar í gær, þrír tímar að lengd. Macron hefur litla reynslu af slíkum uppákomum enda aldrei verið kosinn til neins áður líkt og áður kom fram. Flestum þótti hann þó standa sig nokkuð vel þrátt fyrir að hafa stundum verið örlítið lengi að koma hlutunum frá sér og eiga erfitt með að svara spurningum hreint út, til að mynda varðandi það hvernig hann myndi taka á Trump Bandaríkjaforseta og þegar hann átti að taka saman stefnumál sín undir lokin. Hann lagði mikla áherslu á það að efnahagur Frakklands þyrfti að komast betur í gang og sótti í sig veðrið eftir því sem leið á kvöldið. Hann þykir sjarmerandi og fékk stífan áhorfendahópinn til að hlæja nokkrum sinnum.
Marine Le Pen getur þó einnig verið sátt með frammistöðu sína. Hún þótti ákveðin og stappaði stálinu í stuðningsmenn sína. Hún er vön því að koma fram og halda tölur og átti ekki erfitt með að fóta sig umkringd fjórum körlum. Hún hrósaði Bretum fyrir að samþykkja Brexit og talaði fyrir því að vernda franska hagkerfið fyrir óbeislaðri alþjóðavæðingu. Hún lofaði öruggum landamærum og nánast algjöru banni á komu innflytjenda til landsins. Þegar Macron sagði að lausnin á flóttamannavandanum væri meira samstarf við Evrópusambandið hló Le Pen hæðið að þeirri fullyrðingu. Hún sagðist þó virða vilja kjósenda og vill að þjóðaratkvæðagreiðsla sé haldin um það hvernig sambandi Frakklands og Brussel sé háttað. Það þótti mjög klókt hjá henni að leyfa ekki efasemdum sínum um ESB að fæla frá kjósendur sem eru af báðum áttum og vilja ef til vill ekki fara í sömu vegferð og Bretar.
Stuðningsmenn Macron geta því andað léttar eftir kappræðurnar. Hann gerði engin stór mistök og virtist verða öruggari með sig eftir því sem leið á kvöldið. Ef hægt er að segja að þær gefi forsmekkinn af seinni umferð forsetakosninganna er óhætt að segja að hún verði spennandi.