Er andrúmsloftið í Hvíta húsinu og efstu lögum bandarísks stjórnkerfis gegnsýrt af ofsóknarbrjálæði og ótta? Þetta fullyrða fjöldamargir heimildarmenn, bæði í Hvíta húsinu og víðar í Washington D.C. Höfuðborgar Bandaríkjanna við blaðamenn bandaríska fréttamiðilsins Politico í nýrri grein og er óhætt að segja að umfjöllunin máli upp afar dökka mynd af ástandinu þar. Starfsfólk þorir ekki að tjá sig af ótta við að öllum orðum þeirra verði lekið í fjölmiðla og geyma farsímana ofan í skúffu.
Politico ræddi við meira en tíu manns, aðstoðarmenn og starfsmenn opinberra stofnana um ástandið í Washington Trumps. Allir sem rætt var við óskuðu eftir nafnleynd.
Trump hefur sjálfur verið duglegur á að ala á ,,við gegn þeim“ hugsunarhætti, fyrst í kosningabaráttu sinni og síðan eftir að hann tók við embætti þann 20. janúar síðastliðinn. Það virðist hafa náð til starfsfólks hans.
Sumir sem Politico ræddi við óttast andstæðinga innan raða stuðningsmanna Trump og svo virðist sem mikil klíkumyndun sé meðal starfsliðsins. Aðrir óttast opinbera starfsmenn sem ekki eru pólitískt skipaðir og séu andsnúnir Trump. Þá saka þeir um að grafa undan forsetanum. Enn aðrir óttast svokallað ,,deep state“, meintan hóp fólks innan varnarmálaráðuneytisins, hersins og leyniþjónustunnar sem vilji losna við Trump með öllum tiltækum ráðum.
Ýmislegt gert til að forðast eftirlit
Aðstoðarfólk lýsir því hve langt það gengur til að fela slóð sína. Til að mynda slekkur það á snjallsímum sem starfsfólk fær úthlutað og setur þá ofan í skúffu til að koma í veg fyrir að njósnað sé með þeim. Sumir þora ekki að tjá sig á fundum af ótta við leka.
Sumir eru byrjaðir að nota dulkóðunarforrit og forrit sem eyða skilaboðum um leið og þau eru lesin sem minnir á margt um Mission Impossible myndirnar með stórleikaranum Tom Cruise.
Það er mat einhverra sem Politico ræddi við að þetta andrúmsloft sé að valda því að stjórnkerfið sé ekki að starfa sem skyldi. Æðstu ráðgjafar hugsa meira um að passa sitt en að koma einhverju í verk, lykilstöður eru ómannaðar af ótta við að ráða fólk sem eru ekki sannir fylgismenn Trumps. Forsetinn hefur verið yfirlýsingaglaður í gegnum tíðina um hvað hann muni gera þegar hann haldi um stjórnartaumana en meira púðri virðist eytt í algjörlega órökstuddar fullyrðingar um meintar hleranir Obama forvera hans.
Einn háttsettur aðstoðarmaður segir að andrúmsloftið sé eitrað og ekki sé hægt að halda svona áfram lengi og bætti við:
Fólk er hrætt.
Þessu hafna forsvarsmenn Trump sem Politico bar málið undir.
Trump hefur allan sinn ferill verið þekktur fyrir það að skapa undirmönnum sínum erfiðar starfsaðstæður. Hann hefur til að mynda lagt mikið upp úr því að fylgjast með fólki sem starfar fyrir hann og sumir sem störfuðu fyrir hann í kosningabaráttunni voru sannfærðir um að þeir væru hleraðir.
Eru njósnarar að grafa undan forsetanum?
Eftir uppljóstranir WikiLeaks í síðustu viku um hve þróaða tækni bandarískar leyniþjónustur búa yfir til að njósna um fólk hefur ofsóknaræðið aðeins aukist. Hér má lesa frétt Pressunar um WikiLeaks lekana. Hve mikið af viðkvæmum upplýsingum hefur lekið til fjölmiðla úr Hvíta húsi Trump þykir starfsfólki renna stöðum undir ótta sinn. Sumir eru sannfærðir um að leyniþjónustur landsins vinni að því myrkranna á milli að koma forsetanum úr embætti.