Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir miklar áskoranir bíða Íslendinga í samgöngumálum, ekki síst í ljósi þess hve umferð hefur aukist með stórauknum fjölda ferðamanna. Fyrir nokkrum árum hafi um hálf milljón manns sótt Ísland heim árlega. Nú stefni í að þeir verði um 2,5 milljónir í ár.
Jón segir að álagið á helstu leiðum inn og út frá höfuðborgarsvæðinu sé komið út fyrir þolmörk.
Leiðirnar hér inn og út úr höfuðborginni eru sprungnar. Algerlega sprungnar. Það fara ég held um 80 þúsund bílar um Ártúnsbrekkuna á hverjum degi. Hún er hætt að bera þetta. Reykjanesbrautin 16 til 17 þúsund bílar á hverjum degi. Hún er miðað við alla mælikvarða sprungin. Það sama á við hér um Vesturlandsveginn. Göngin uppi í Hvalfirði eru að nálgast það að það mun þurfa að takmarka umferð um þau á ákveðnum álagstímum…Það er raunar komið í þá stöðu núna að við þurfum bara að fara að senda slökkviliðið á vettvang. Það er orðið neyðarástand víða,
sagði samgönguráðherra í samtali við Björn Inga Hrafsson í sjónvarpsþættinum Eyjunni á ÍNN í gærkvöldi.
Jón Gunnarsson segir að fjármunir í fjárlögum ríkisins dugi einfaldlega ekki til. Nú síðast hafi útgjöld ríkissjóðs á milli áranna 2016 og 2017 verið aukin um 52-53 milljarða. Af því hefðu vegamálin fengið 4,6 milljarða en hefðu þurft að fá 14 milljarða til þess að klára og fjármagna samgönguáætlun.
En við getum alveg rifjað upp umræðuna eins og hún var við fjárlagagerðina, kröfuna sem var um áherslu á heilbrigðiskerfið, veferðarkerfið, bæta kjör eldri borgara. Það var virkilega forgangsraðað í þessa málaflokka við fjárlagagerðina á þessu ári, í þverpólitískri afgreiðslu.
Jón sagði að verkefnin sem við stæðum frammi fyrir væru mjög stór.
Bara það að fara í Sundabrautina kostar kannski 45 til 50 milljarða. Þetta suðurfrá, frá Keflavíkurflugvelli og gegnum Hafnarfjörð, hvað á maður að skjóta á? 20 milljarðar. Suðurlandsveginn hér austur fyrir Selfoss. Ölfusárbrúin er sprungin, hún þolir ekki alla þessa þungaflutninga. Tökum öll þessi verkefni og förum svo aðeins lengra. Teigsskógur, sem er mjög brýnt, og ekki síst í ljósi ánægjulegrar atvinnuþróunar á Vestfjörðum…sex milljarðar í Teigsskóg.
Ráðherrann nefndi einnig Dýrafjarðargöng, Dettifossveg, Berufjarðarbotn og brú yfir Hornafjarðarfljót, fækkun einbreiðra brúa. Fjárþörfin væri minnst upp á 65 milljarða og þó væri ekki allt inni í því. Þetta væri megin ástæða þess að hann hefði sett af stað vinnu við að skoða nýjar lausnir við fjármögnun vegaframkvæmda.
Ég hef sagt að í ljósi þessara aðstæðna, þá þurfum við að leita einhverra leiða. Ef við ætlum að taka eitthvað annað þá þurfum við að taka frá einhverjum öðrum málaflokkum…Nú erum við komin með þennan stóra kúnna inn í vegakerfið hjá okkur [ferðamenn] og hvernig getum við þá mögulega fengið hann til þáttöku. Það er auðvitað þekkt aðferð þessi vegagjaldahugmynd og ég bíð bara spenntur eftir að fá niðurstöðu þessarar vinnu sem mun sýna okkur hvernig þetta gæti litið út. Þetta er viðkvæmt mál, sérstaklega fyrir þá sem fara reglulega, dags daglega til vinnu eða skóla eða eitthvað slíkt um þessar leiðir. Við verðum auðvitað í allri gjalddtöku að taka tillit til þess…Fólk er að átta sig á því að við þurfum nýja hugsun í þetta.
Jón Gunnarsson kallaði eftir samfélagslegu átaki til að leita leiða til lausna á þessum verkefnum.
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Jón Gunnarsson:
https://vimeo.com/207698299