Enn í dag er enginn sem skilur okkur. Eftir að hann nauðgaði mér, það var ekkert sem hann gerði mér ekki. Þeir héldu okkur í þessu húsi í fjórar vikur. Á hverjum degi vorum við niðurlægðar og okkur var nauðgað á hverjum degi.
Þetta segir Ekhlas Kidir sem haldið var í kynlífsþrælkun í 152 daga. Þeir sem beittu Ekhlas Kidir þessu hrottalega ofbeldi voru liðsmenn Íslamska ríkisins. Ríkisútvarpið fjallaði um málið í vikunni. Í frétt RÚV kemur fram að í Írak hafa liðsmenn Íslamska ríkisins haldið mörg hundruð Jasída-stúlkum í kynlífsþrælkun. Ekhlas Kidir steig fram og sagði frá ofbeldinu en henni var nauðgað mörgum sinnum á dag.
Jasídar hafa verið á flótta eftir að liðsmenn Íslamska ríkisins tóku yfir landsvæði í Írak en þeir lía á Jasída sem villutrúarmenn. Hafa þúsundir karlmanna verið myrtir á hrottalegan hátt en konurnar verið gerðar af kynlífsþrælum.
Ekhlas Kidir sem tókst að sleppa og dvelur nú í Þýskalandi segir að hún komist ekki heim á næstunni.
„Ég hef reynt að stytta mér aldur fjórum sinnum. Tvisvar reyndi ég að skera mig á púls og einu sinni gleypti ég 150 pillur. Í hitt skiptið drakk ég bensín,“ sagði Ekhlas Kidir þegar hún lýsti afleiðingum ofbeldisins.
Annað hvort verður þjóðarmorð á Jasídum viðurkennt eða sérstakri alþjóðlegri vernd verður komið á fyrir Jasída. Að öðrum kosti getum við aldrei farið heim.