Ljósmyndir af Michelle Obama fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna þungbúinni á svip daginn þegar Donald Trump var settur í embætti forseta 20. janúar sl. vöktu mikla athygli á sínum tíma.
Svo virtist sem Michelle Obama væri afar óánægð með stöðu mála og ætti erfitt með að leyna tilfinningum sem væru einhvers konar blanda af fyrirlitningu og jafnvel öfund yfir því að önnur hjón væru að taka yfir þann sess sem hún og maður hennar höfðu notið síðustu átta árin.
Myndum af Michelle Obama var víða deilt á samfélagsmiðlum þar sem fólk sagðist skilja vel að hún ætti erfitt með að leyna andúð sinni á Trump-hjónunum og öllu því sem þau stæðu fyrir:
https://twitter.com/CGBPosts/status/822561513881956353
Nú hefur Michelle Obama útskýrt hvers vegna hún var svona á svipinn. Það gerði forsetafrúin fyrrverandi þar sem hún tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu í American Institute of Architects í Orlando á fimmtudag. Hún sagðist ekki hafa verið fúl eða neikvæð í garð Trump-hjónanna heldur barðist hún allan tímann við að halda aftur af tárunum vegna þess að hún var sorgmædd yfir því að eiginmaður hennar og allt starfslið Hvíta hússins til fjölda ára yrði nú að víkja fyrir nýjum forseta og starfsfólki hans.
Ég vildi ekki tárfella vegna þess að fólk hefði þá verið sannfært um að ég væri að gráta út af nýja forsetanum,
hefur Independent eftir forsetafrúnni fyrrverandi.
Ráðstefnan í Orlando var fyrsti opinberi viðburðurinn þar sem forsetafrúin fyrrverandi kemur fram eftir forsetaskiptin í janúar.
https://www.youtube.com/watch?v=IBPCM4qxQXY
Þegar Michelle Obama yfirgaf Hvíta húsið ásamt eiginmanni sínum hafði hún áunnið sér geysimikla virðingu og vinsældir meðal margra Bandaríkjamanna sökum glæsileika síns og heillandi framkomu. Eftir að maður hennar vék til hliðar hafa háværar raddir heyrst þar sem þess hefur verið óskað að hún færi sjálf í forsetaframboð. Michelle Obama vísaði þessu alfarið á bug í Orlando:
Ég vil ekki að börnin mín þurfi að fara í gegnum þetta á nýjan leik vegna þess að ef maður fer í forsetaframboð þá snýst það ekki bara um mann sjálfan heldur alla fjölskylduna. Það er líka svo margt sem er hægt að gera með því að standa utan við þetta.
Barack, Michelle og dæturnar Malia (18) og Sasha (15) eru nú flutt inn í eigið hús sem stendur í um þriggja kílómetra fjarlægð frá Hvíta húsinu í Washington. Síðustu þrjá mánuðina hefur fjölskyldan notið þess að slaka á og eiga frí eftir forsetatímabilið. Myndir af þeim hafa birst þar sem þau hafa notið lífsins í Karíbahafi, á Hawaii og í Palm Springs.
Nú er hversdagsleikinn hins vegar óðum að taka við. Barack Obama hefur sjálfur tekið þátt í sínum fyrsta opinbera viðburði sem fyrrum forseti. Það gerði hann á dögunum í pallborðsumræðum með ungum leiðtogum í háskólanum í heimaborg sinni Chicago. Þar sagðist hann meðal annars ætla að vinna að því að næsta kynslóð yrði virk í stjórnmálaþátttöku.