fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Sighvatur Björgvinsson: Samfylkingin missti tiltrú þjökuð af innri deilum – vill að fyrrum forysta skýri sinn hlut

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 28. apríl 2017 22:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sighvatur Björgvinsson í Eyjunni í gærkvöldi.

Sighvatur Björgvinsson fyrrum þingmaður og ráðherra Alþýðuflokksins og einn af stofnendum Samfylkingarinnar segir að flokkurinn hafi misst tiltrú kjósenda. Hrunið hafi byrjað þegar flokkurin gekk til stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokki 2007 og úr varð hin svokallaða „hrunstjórn.“ Síðan hafi Samfylkingin leitt fyrstu hreinu vinstri stjórnina en mistekist í að ná fram nokkrum af helstu stefnumálum sínum. Sighvatur tjáði sig um stöðu jafnaðarmanna á Íslandi í dag í þættinum Eyjunni á ÍNN í gærkvöldi.

Björn Ingi Hrafnsson þáttarstjórnandi leit yfir farinn veg Samfylkingarinnar og dró fram þá staðreynd að þingmenn flokksins á höfuðborgarsvæðinu hefðu allir fallið af þingi í síðustu alþingiskosningum í október sl. Hann benti á að gamlir Alþýðuflokksmenn hefðu fyrr í vikunni hist til að skoða stöðu jafnaðarmanna á Íslandi í dag. Sighvatur sagðist hafa verið staddur erlendis þegar sá fundur hefði farið fram, annars hefði hann mætt. En gamlir jafnaðarmenn virðast ekki til stórræðanna:

Við eigum ósköp fá úrræði. Við tilheyrum gamalli kynslóð sem að er ekki lengur við völd á Íslandi og hefur takmörkuð áhrif. Við hefur tekið nýtt samfélag sem við þekkjum ekkert allt of vel. Allt öðru vísi samfélag heldur en við ólumst upp við. Það er ekkert verra samfélag það er bara öðruvísi. Allt er breytingum háð og við kannski ekki besta leiðbeiningaraflið,

sagði Sighvatur. Hann vék síðan tali sínu að mati sínu á því hvað gerst hefði með Samfylkinguna. Þar hefðu gamlir jafnaðarmenn skoðun. Samfylkingin hefði verið stofnuð til að sameina vinstra fólk sem áður var í mismunandi fylkingum. Það átti að stofna öflugan jafnaðarmannaflokk sem væri valkostur til stjórnarforystu á móti Sjálfstæðisflokknum.

Samfylkingin tekur ákvörðun um það að ganga til liðs við þann flokk með myndun hrunstjórnarinnar. Og hún gerir það án þess að í þeim stjórnarsáttmála sé nokkuð sjáanlegt sem að komi frá íslenskum jafnaðarmönnum. Við höfðum gengið áður til samstarfs, þegar við vorum lítill flokkur Alþýðuflokkurinn, gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Okkur hafði alltaf tekist að ná fram einhverjum atriðum sem að voru auðmerkt jafnaðarstefnunni. Það gerðist ekki þarna.

Sighvatur sagði að með þessu ríkisstjórnarsamstarfi hefði sængin verið uppreidd fyrir flokkinn.

Þá byrjaði hrunið já, innan Samfylkingarinnar.

Svo bættist grátt ofan á svart.

Síðan gerist það að Samfylkingin tekur við stjórnarforystu í fyrsta skiptið sem íslenskir jafnaðarmenn fá stjórnarforystu. Og þá höfðum við mörg, mikla tiltrú. Hver voru þá helstu úrræði íslenskra jafnaðarmanna? Það var að draga úr misréttinum í samfélaginu. Það tókst. Það var að reyna að vernda unga fólkið fyrir áfalli. Það tókst ekki. Það var að reyna að fá undirstöðuatvinnuveginn til þess að taka sanngjarnan þá í útgjöldum þjóðarinnar. Það tókst ekki. Mörg helstu baráttumál jafnaðarmanna, þau gengu ekki upp. Þeim var lofað í þessari ríkisstjórn en það var ekki staðið við þau.

Þarna í þessari ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi Samfylkingin missti tiltrú.

Og þú sérð það best á því að í síðustu kosningum koma fram þrjú framboð sem öll taka upp gömul stefnumál Alþýðuflokksins. Sem Alþýðuflokkurinn stóð einn að, það er að segja um það að skipta um gjaldmiðil, um að gera eðlilegrar kröfur til undirstöðuatvinnuveganna að taka þátt í útgjöldum þjóðarinnar.

Með þessum þremur flokkur sagði Sighvatur eiga við Viðreisn, Bjarta framtíð og Pírata.

Og af hverju komast þeir upp með það? Vegna þess að Samfylkingin er ekki trúverðug lengur. Hún er ekki trúverðug lengur. Til viðbótar þessu ríktu eilífar deilur og átök, persónuleg átök innan flokksins, þar sem menn voru alltaf að metast um hverjir væru sannari kratar – ég eða þú – meiri vinstrimenn. Þetta bar dauðann í sér. Því er nú komið fyrir Samfylkingunni eins og komið er, því miður.

Björn Ingi spurði þá hvort Sighvatur teldi að ábyrgðin lægi hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur sem voru formenn flokksins þegar hann tók þátt í þessum tveimur ríkisstjórnum?

Það segir sig sjálft að þegar flokkur fer úr 30 prósentum niður í fimm prósent, þá hlýtur einhver að bera ábyrgð. Það er ósanngjarnt að spyrja mig og þá sem komu að því að afhenda fólkinu sem tók við, 30 prósenta flokk, spyrja okkur um skýringu. Af hverju gerðist þetta? Af hverju spyr enginn forystumennina sem stóðu í fylkingarbrjósti þegar þessir atburðir urðu? Ég hef ekki heyrt neinar skýringar frá þeim. Spyrjið þá!

Björn Ingi upplýsti í þættinum að hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefðu þegið boð um að koma í Eyjuna. Sighvatur spurði:

Af hverju ekki? Vilja þær ekki svara spurningunni sem þú ert að spyrja mig um?

Sighvatur sagðist mjög ósáttur með hvernig til tókst með Samfylkingua.

Að sjálfsögðu. Það hljóta allir jafnaðarmenn að vera ósáttir með það að vera kominn upp í þá stöðu að vera næst stærsti og jafnvel stærsti flokkur þjóðarinnar niður í það að eiga þrjá þingmenn.

Sighvatur sagðist eiga erfitt með að sjá að hægt væri endurvekja gamla Alþýðuflokkinn því nú væru komnar nýjar kynslóðir sem vissu ekkert um þann flokk eða fyrir hvað hann stóð.

Íslensk jafnaðarstefna er í miklum öldudal og hún er í mikilli kreppu. Hennar kreppa er ekki sú að það séu ekki nógu margir landsmenn sem séu þeirrar skoðunar að vilja styðja svona flokk. Glundroðinn er svo mikill og það eru svo margir hópar sem eru að bjóða fram sambærilega stefnu og kalla eftir fylgi frá sama hópi. Meðan sundurlyndið er svona, þá….

sagði Sighvatur Björgvinsson og hristi höfuðið.

Fleira var rætt í þessu áhugaverða viðtali við Sighvat Björgvinsson, svo skatta á stjóriðju, ferðaþjónustu og sjávarútveg. Horfa má viðtalið hér fyrir neðan: 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“