Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir líkur á „miklum, miklum átökum“ við Norður-Kóreu. Hann segist helst vilja leysa málið (Norður-Kóreu vandamálið) með samningum en það sé mjög erfitt. Því séu líkur á að á endanum komi til mikilla átaka Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Þetta sagði Trump í gær í viðtali við Reuters fréttastofuna. Kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunir Norður-Kóreu eru ein stærstu málin sem stjórn Trump stendur frammi fyrir en sumir sérfræðingar telja að Norður-Kórea verði í stakk búin til að skjóta langdrægum kjarnorkueldflaugum á Bandaríkin eftir þrjú ár.
Í viðtalinu hældi Trump forseta Kína, Xi Jinping, en þeir funduðu í Flórída fyrr í mánuðinum og hafa ræðst við í síma eftir það. Trump sagðist telja að Jinping legði mjög hart að sér til að fá stjórnvöld í Norður-Kóreu ofan af því að standa í tilraunum með kjarnorkuvopn og langdrægar eldflaugar. Trump sagði Jinping vera góðan mann og að þeir hafi kynnst vel. Forsetinn vilji örugglega ekki að til stríðs komi í Kóreu.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að Kínverjar hafi varað stjórnvöld í Norður-Kóreu við og sagt þeim að Kína muni taka upp sínar eigin refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu ef Norður-Kórea sprengi enn eina kjarnorkusprengju. Þetta sagði hann í samtali við Fox News. Þetta bendir til að Kínverjar séu að herða afstöðu sína og framgöngu gagnvart nágrönnum sínum og bandamönnum í Norður-Kóreu. Kínversk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um þetta.
Kínverjar bönnuðu innflutning á kolum frá Norður-Kóreu í febrúar og fregnir hafa borist af því að þeir hafi einnig lokað fyrir olíusölu til Norður-Kóreu, þær fregnir hafa þó ekki verið staðfestar.
Tillerson sagði í samtali við Fox News að Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, væri ekki galinn. Hann væri kannski miskunarlaus og jafnvel morðingi og sumir myndu jafnvel segja hann vera óraunsæjan en galinn væri hann ekki.