Á morgun, miðvikudag, munu allir 100 öldungadeildarþingmenn Bandaríkjanna fara á fund Donald Trumps forseta í Hvíta húsinu. Ástæðan fyrir þessu óvenjulega fundarboði er ástandið á Kóreuskaganum og munu helstu forsvarsmenn stjórnar Trumps fræða öldungadeildarþingmennina um nýjustu atburði og fyrirhugaðar aðgerðir gegn Kim Jong-un og stjórn hans.
Þeir sem taka á móti hópnum eru utanríkisráðherrann Rex Tillerson, varnarmálaráðherrann Jim Mattis, yfirmaður þjóðaröryggisráðsins Dan Coats og yfirmaður hersins, Joseph Dunford hershöfðingi. Þessi greindi Sean Spicer, blaðamannafulltrúi Trump frá á mánudag. Reuters greinir frá.
Upphaflega stóð til að fundurinn yrði haldinn í þinghúsinu en hann var færður í Hvíta húsið að undirlagi Trump forseta. Það þykir sæta tíðindum að allir öldungadeildarþingmenn séu boðaðir á slíkan fund en þetta þykir renna stoðum undir þá orðróma að fyrirhugað séu aðgerðir til að stemma stigu við uppgangi Norður-Kóreu. Auk þess vilji Bandaríkjamenn senda skilaboð til Pyongyang að óbreytt ástand sé ekki lengur ásættanlegt.
Kjarnavopna og eldflaugatilraunir Norður-Kóreu hafa valdið miklum titringi víða um heim og hefur ástandið í þessum heimshluta ekki verið jafn eldfimt lengi. Trump hringdi í leiðtoga Kína og Japan um helgina og sagði fulltrúum í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna að eitthvað yrði að gera og ekki væri lengur stætt á því að leyfa Kim Jong-un að vaða uppi.
Fundurinn mun hefjast klukkan sjö annað kvöld að íslenskum tíma.