Fyrstu útgönguspár í forsetakosningunum í Frakklandi í dag benda til að Marine Le Pen og Emannuel Macron hafi hlotið flest atkvæði kjósenda. Le Pen er fulltrúi hægri þjóðernissinna en Macron er frambjóðandi miðjuaflanna.
Kantar Sofres-fyrirtækið hefur gert útgönguspá fyrir TF1-fjölmiðalfyrirtækið. Þar eru bæði með 23 prósent atkvæða. Vinstrimaðurinn Jean Luc Mélenchon og íhaldsmaðurinn Francois Fillon fá 19 prósent. Sósíalistinn Benoit Hamon er svo í fimmta sæti.
Ipsos metur það einnig svo að Macron og Le Pen fari áfram. Hún hafið hlotið 21,7 prósent en hann 23,7 prósent.
Aftenposten í Noregi skrifar að þessi úrslit séu hamfarir í sögu franskra stjórnmála, því í fyrsta sinn í sögunni eftir seinni heimsstyrjöld eru fulltrúar hefðbundnu stóru hreyfinganna í frönskum stjórnmálum, sósíaldemókrata og íhaldsmanna, slegnir út strax í fyrstu umferð forsetakosninga.
Frambjóðendur sem ekki ná í seinni umferð kosninganna eru þegar byrjaðir að setja sig í stellingar, hvetur Benoit Hamon stuðningsmenn sína að kjósa Macron í seinni umferðinni til að koma í veg fyrir að Le Pen verði kjörin forseti. Samkvæmt BBC gerði Fillon hið sama þegar hann játaði sig sigraðan.
Seinni umferð forsetakosninganna fer fram eftir tvær vikur, þann 7. maí. Þá verður ljóst hver verður næsti forseti Frakklands.