Frakkar ganga nú til fyrri umferðar forsetakosninga. Alls eru 11 frambóðendur í kjöri en sviðsljósið beinist mest að þeim fjórum sem talin eru eiga möguleika. Reglurnar eru þannig að þeir frambjóðendur sem skipta með sér tveimur efstu sætunum í fjölda atkvæða í dag, munu svo taka þátt í seinni umferðinni sem verður 7. maí. Þar þarf sigurvegarinn að hljóta meirihluta atkvæða til að verða næsti forseti Frakklands.
Kosningarnar í dag gætu farið þannig að Frakkar fengju í seinni umferðinni að velja milli tveggja frambjóðenda sem koma yst af báðum vængjum stjórnmálanna. Það yrðu þá hægri konan og þjóðernissinninn Marine Le Pen og vinstri maðurinn og sósíalistinn Jean-Luc Mélenchon. Það eina sem þau tvö eiga sameiginlegt er andúðin á Evrópusambandinu og flestu ef ekki öllu sem það stendur fyrir. ESB-sinnum í Evrópu yrði ekki skemmt ef annað þeirra yrði forseti Frakklands.
Það er ekkert leyndarmál að við munum ekki fagna ofsalega fari svo að niðurstöðurnar leiði til annarar umferðar sem yrði milli Le Pen og Mélenchon,
segir Wolfgang Schaeuble fjármálaráðherra Þýskalands við Reuters-fréttastofuna.
Aðilar innan fransks atvinnulífs virðast hafa svipaða afstöðu og forystufólk Þýskalands.
Seinni kosningaumferð þar sem Mélenchon mætir Le Pen mun færa kjósendum tvo valkosti: Efnahagslegt stórslys eða efnahagslegan glundroða,
hefur Financial Times eftir Pierre Gattaz formanni frönsku atvinnurekendasamtakanna Medef.
Skoðanakannanir benda til að Marine Le Pen eigi mjög góða möguleika til að verða önnur þeirra tveggja sem komast áfram í aðra umferð. Stóra spurningin er hins vegar hver verði andstæðingur hennar þar. Framan af benti allt til þess að miðjumaðurinn Emmanuel Macron eða íhaldsmaðurinn Francois Fillon myndu hneppa það hnoss en undanfarið hefur sósíalistinn Jean-Luc Mélenchon fengið mikinn byr í seglin.
Bloomberg-fréttastofan hefur slegið saman nokkrum könnunum á fylgi frambóðenda og birti niðurstöðurnar í gær. Þar virðist Emmanuel Macron hafa 24,5 prósenta fylgi. Næst á eftir honum kom Marine Le Pen með 22,5 prósent. Francois Fillon mældist svo með 19,5 prósent og Mélenchon með 18,5 prósent.
Hvort þetta verður niðurstaðan er svo annað mál. Töluverð óvissa er þar sem margir kjósendur hafa átt erfitt með að gera upp hug sinn allt fram á þennan dag. Atburðir á borð við hryðjuverkaárásina á Champ Élysées-breiðstrætinu í hjarta Parísar í liðinni viku gætu einnig haft áhrif.
Eyjan hefur áður greint frá því að forsetakosningarnar í dag eru haldnar í skugga hryðjuverkaógnar. Geysileg öryggisgæsla ríkir nú Frakklandi þar sem þjóðfélagið er enn undir neyðarlögum og á hæsta viðbúnaðarstigi eftir hryðjuverkin mannskæðu í París í nóvember 2015.
Sjá frétt: Franskar forsetakosningar í skugga hryðjuverkaógnar.
Kjörstaðir í Frakkalandi loka klukkan 18 í dag að íslenskum tíma og þá má búast við fyrstu tölum.