Franski lögreglumaðurinn sem féll í árás hryðjuverkamanns á Champs-Élysées breiðstrætinu í París í gærkvöldi hét Xavier Jugelé. Hann hefði orðið 38 ára gamall í byrjun maí.
Jugelé var þekktur fyrir hugrekki sitt og bjó yfir mikilli reynslu. Franska Le Parisien skrifar að hann hafi verið í hópi þeirra lögreglumanna sem komu fyrstir á vettvang í Bataclan-tónleikahúsinu í hryðjuverkaárásunum í París í nóvember 2015 þegar 130 manns voru myrt og fjöldi manns hlutu sár og örkuml. Aðkoman að Bataclan var hroðaleg þar sem hryðjuverkamenn höfðu skotið úr hríðskotabyssum inn í mannfjölda sem var á tónleikum þar og síðan tekið gísla.
Jugelé var einnig til staðar þegar árásanna var minnst ári síðar þar sem tónlistarmaðurinn Sting hélt tónleika í Bataclan. Þá var hann tekinn tali af tímaritinu People þar sem hann sagðist ánægður með að vera kominn aftur og að Bataclan væri að opna á ný:
Þetta er táknrænt. Við erum hér í kvöld sem vitni. Hér til að verja borgaraleg gildi okkar. Þessir tónleikar eru til að hylla lífið. Til að afneita hryðjuverkamönnum.
Þessi ummæli Xavier Jugelé eru nú rifjuð upp á Twitter:
Le nom de Xavier Jugele est désormais public. Voici l'extrait de l'article sur la réouverture du Bataclan qui le cite. pic.twitter.com/Mh33gWuIsp
— Nicolas Henin (@N_Henin) April 21, 2017
Xavier Jugelé var einnig þekktur sem samkynhneigður lögreglumaður og virkur í samtökunum Flag! í Frakklandi. Flag!-samtökin berjast fyrir réttindum samkynheigðra í lögreglunni. Þau hafa minnst liðsmanns síns á Twitter:
Pour ne jamais oublier Xavier.
RIP pic.twitter.com/HWzvWN0R90— Flag ! (@flagasso) April 21, 2017
Einnig særðust tveir lögreglumenn og þýsk kona sem var af tilviljun stödd þar sem skotárásin var gerð á lögreglumennina. Þau er nú öll úr lífshættu.
Þekktur vandræðamaður með ljóta fortíð
Frönsk yfirvöld hafa nú staðfest að hryðjuverkamaðurinn sem hóf skothríðina og var felldur af lögrelgunni hafi heitið Karim Cheurfi. Hann var 39 ára og fæddur í Frakklandi. Hann hafði langa sakaskrá og var síðast til yfirheyrslu hjá lögregluyfirvöldum í febrúar sl. Árið 2001 fékk hann 15 ára fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að myrða þrjár manneskjur þar sem tveir voru lögregluþjónar. Hann var látinn laus til reynslu 2015. Frönsk öryggisyfirvöld vissu af manninum og settu hann undir eftirlit í janúar á þessu ári. Í framhaldinu var hann svo yfirheyrður í febrúar. Fulltrúar lögreglu segja að í þeim rannsóknum hafi ekki neitt komið í ljós sem benti til tengsla Karim Cheurfi við róttæka íslamista né nokkuð sem réttlætti frekari rannsóknir.
Cheurfi hóf árás sína í gærkvöldi með því að skjóta á lögreglubíl þar Xavier Jugelé týndi lífi. Síðan beindi hryðjuverkamaðurinn skothríðinni að öðrum lögreglumönnum sem voru á verði fyrir utan tyrkneska ferðaskrifstofu. Hann var felldur af lögreglumönnum. Við lík hans fannst handskrifaður pappírsmiði með lofsorðum um hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið. Í bílnum sem hann notaði við árásina fundust síðan pappírsmiðar með upplýsingum um aðsetur ýmissa lögreglustöðva og -stofnana. Í burðarpoka í bílnum var svo afsöguð haglabyssa, tveir eldhúshnífar og annað bitverkfæri.
Auk þess að Xavier Jugelé týndi lífi þá særðust tveir lögreglumenn og þýsk kona sem var af tilviljun stödd þar sem skotárásin var gerð á lögreglumennina. Þau þrjú munu nú öll úr lífshættu.
Íslamska ríkið svokallaða mun hafa lýst ábyrgð á árásinni í gær á hendur sér.