Fórnarlömb ofsókna í Téteníu stíga nú fram og draga upp dökka mynd af ástandinu í þessu litla sjálfstjórnarlýðveldi í Kákasusfjöllunum. Nýlega var greint frá því að samkynhneigðum karlmönnum í rússneska lýðveldinu Téteníu væri varpað í fangabúðir. Þetta hefur vakið hörð viðbrögð víða um heim og hafa Sameinuðu Þjóðirnar og fleiri samtök lýst yfir þungum áhyggjum af aðstæðum samkynhneigðra í Téteníu.
Sjá frétt: Samkynhneigðir karlmenn vistaðir í fangabúðum – Sæta pyntingum og barsmíðum
Í grein bandaríska dagblaðsins New York Times er fjallað um málið og rætt við fórnarlömb ofsókna og pyntinga. Ungur maður, Maksim að nafni var handsamaður af öryggissveitum fyrir tveimur vikum þegar hann ætlaði að hitta gamlan vin sinn sem einnig er samkynhneigður. Hann var pyntaður og barinn í tvær vikur. Honum voru gefin raflost þar sem hann var bundinn við stól, barinn ítrekað og yfirheyrður.
Samkynhneigðir hafa aldrei átt auðvelt uppdráttar í Téteníu. Landið tilheyrir Rússlandi en er sjálfsstjórnarlýðveldi og þar stjórnar Ramzan Kadyrov með harðri hendi með blessun Pútín forseta Rússlands.
Þrátt fyrir að samkynhneigðir, einkum karlmenn, hafi aldrei átt auðvelt með að feta sig í Téteníu eru ofsóknirnar sem nú standa yfir algjörlega ný ógn. Íbúar landsins eru að mestu múslimar og hafa harðneskjuleg útgáfa trúarbragðana sem á rætur sínar að rekja til Sádí-Arabíu fest þar rætur á undanförnum áratugum.
Áður en ofsóknirnar hófust gátu samkynhneigðir lifað nokkuð eðlilegu lífi. Þeir áttu sér staði þar sem þeir gátu hist og nýttu netið mikið til samskipta. Nú eru netsíðurnar fullar af útsendurum stjórnvalda sem þykjast vera í leit að vinskap og lokka menn á staði þar sem þeim er síðan rænt.
Þessar ofsóknir hófust þegar samtök samkynhneigðra í Rússlandi, GayRussia, sóttu um leyfi til að halda göngur í Téteníu. Samtök trúaðra risu upp og mótmæltu þessu harðlega og þá gripu yfirvöld inn í með því að handtaka samkynhneigða karlmenn í stórum stíl.
Sumir þeirra sem handsamaðir voru var sleppt úr haldi eftir einn dag en öðrum haldið í margar vikur samkvæmt mannréttindasamtökunum Human Rights Watch og voru einhverjir nær dauða en lífi þegar þeir komust aftur í hendur ástvina. Að minnsta kosti einn hefur látist í haldi öryggisveita og tveir karlmenn voru myrtir í svokölluðum ,heiðursmorðum‘ af fjölskyldumeðlimum í kjölfar þess að þeim var rænt.
Kadyrov notar ótta til að hafa stjórn á þegnum sínum og beitti svipuðum aðferðum í baráttunni við uppreisnar- og hryðjuverkamenn í landinu á árum áður. Í dag er uppreisnin á bak og burt og Kadyrov virðist vilja ná fram sömu áhrifum gagnvart samkynhneigðum og gagnvart þeim sem tóku upp vopn til að berjast gegn yfirráðum hans. Mörg dæmi eru um það að samkynhneigðir menn flýi frekar land en að eiga á hættu að lenda í öryggisveitum hans.