Yfirvöld í Norður-Kóreu hyggjast ótrauð halda áfram með flugskeytatilraunir sínar þrátt fyrir vaxandi spennu í samskiptum við Bandaríkin. Um helgina sagði Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna í opinberri heimsókn í Suður-Kóreu að Bandaríkjamenn væru að missa þolinmæðina gagnvart Norður-Kóreumönnum og þeir ættu að passa sig að láta ekki reyna á hvort Bandaríkin stæðu við stóru orðin.
Han Song-ryol aðstoðarutanríkisráðherra Norður-Kóreu sagði í samtali við BBC að þeir ætli að standa fyrir allt að vikulegum flugskeytatilraunum og ef Bandaríkin ætli sér að grípa til hernaðaraðgerða þá myndu þeir svara með kjarnorkuárás:
Ef Bandaríkin eru að skipuleggja hernaðarárás á okkur munum við bregðast fyrr við með kjarnorkuárás á okkar forsendum,
sagði Han. Mike Pence fundar í dag með Shinzo Abe forsætisráðherra Japans, hefur Abe sagt að það sé mikilvægt að finna friðsamlega lausn á deilunum á Kóreuskaganum.
Líkt og greint var frá í síðustu viku telur Stein Tønnesson prófessor við norsku Friðarrannsóknastofnunina að nú sé mikil hætta á að stórstyrjöld brjótist út á Kóreuskaga. Yrði slík styrjöld að veruleika óttast Stein að manntjónið gæti hlaupið á milljónum.