Þær sögur fara af Donald Trump Bandaríkjaforseta að hann lesi lítið af bókum. Sjálfur sagði hann á dögunum í viðtali við Fox New s að hann hefði hreinlega ekki tíma til bókalesturs. Í dag kom hann hins vegar með óvænt tíst á Twitter þar sem hann mælti með bók.
„Flott bók sem þér á eftir að líka: „ÁSTÆÐUR TIL AÐ KJÓSA DEMÓKRATA“ eftir Michael J. Knowles.
A great book for your reading enjoyment: "REASONS TO VOTE FOR DEMOCRATS" by Michael J. Knowles.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 17, 2017
Þessi bók er auðlesin sem kannski er eins gott þegar menn hafa mikið annað að gera þar sem ský stórstyrjaldar vofir yfir Kóreuskaga, stór hluti Miðausturlanda er í ófriði, hugsanlegur óróleiki í uppsiglingu í Tyrklandi og það þarf að glíma við Rússana – bara svo fátt eitt sé nefnt.
Bókin sem Trump mælir með inniheldur titil, efnisyfirlit, stutta tilvitnun í grískan heimspeking og upphafssíður kafla með heitum þeirra. Aðrar blaðsíður í þessari 260 síðna bók eru auðar. Hún kom út í febrúar og hefur að sögn Washington Post verið efst á sölulistum Amazon-vefbókaverslunarinnar. Bókin er ódýr, hún kostar aðeins 9,90 dollara eða um 1.100 íslenskar krónur á gengi dagsins.
Ef farið er inn á Amazon og bókin skoðuð þá er hún þar efst á sölulista yfir bækur um stjórnmálaleg efni. Rúmlega tvö þúsund lesendur hafa gefið álit sitt og virðist falla bókin vel í geð. Hún fær 4,8 í meðaleinkunn af 5 mögulegum. Þeir gefa bókinni einnig ýmis skrifleg ummæli.
„Hafir þú nokkru sinni átt erfitt með að skilja hvað er að gerast inni í höfðunum á Chuck Schumer og Nancy Pelosi þá er þetta bókin fyrir þig,
skrifar einn ánægur lesandi.