fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Ögurstund Tyrklands runnin upp í dag: Verður Erdogan einráður?

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 16. apríl 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erdogan forseti gengur með atkvæði sitt úr kjörklefanum í morgun.

Í dag greiða 55 milljónir Tyrkja atkvæði um grundvallarbreytingar í stjórnskipan þessa mikla lands á mörkum Evrópu og Asíu. Tyrkneska þjóðin velur milli þess hvort hún kjósi að landinu verði stjórnað af einum manni, eða að þingbundið ríkisvald verði gert sterkara og skilvirkara. Hver sem útkoman verður er ljóst að þessar kosningar munu senda áhrifabylgjur langt út fyrir landsteina Tyrklands.

Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands er óvtírætt hinn sterki leiðtogi landsins. Hann er sjálfur heitur baráttumaður fyrir því að framkvæmdavaldið í Tyrklandi færist úr höndum ríkisstjórnarinnar sem situr í skjóli þingsins, til forestaembættisins. Erdogan vill völdin í sínar hendur. Hann hefur þau reyndar í dag. Recep Tayyip Erdogan er nær einráður þó stjórnarskrá landsins geri ráð fyrir að forsetinn sé utan flokka og þjóni fyrst og fremst sem sameiningartákn og sé utan flokka.

En nú vill Erdogan ganga alla leið og hafa það formlegt og bundið í stjórnarskrá að framkvæmdavald ríkisins hvíli í höndum forsetans. Meirihluti tyrkneska þingsins hefur þegar fallist á tillögur hans að stjórnarskrárbreytingum. Þær fela í sér að embætti forsætisráðherra verður lagt af. Forseti og varaforseti fari með æðsta framkvæmdavald þjóðarinnar. Forsetinn útnefni sjálfur ráðherra og setji þá af ef tilefni þyki. Með þessu fær forsetinn stóraukin völd á kostnað þingsins. Um leið mun draga úr sjálfstæði dómstólanna. Hljóti stórnarskrárbreytingar Erdogan samþykki þá er rúsínan í pylsuendanum svo að í þeim tillögum er heimilað að hægt verði að kjósa Erdogan til forseta tvö fimm ára kjörtímabil til viðbótar. Hann mun því geta setið á valdastól til ársins 2029.

Erdogan og stuðningsmenn hans hafa barist hatrammlega fyrir því að vinna meirihlutasamþykki fyrir þessum stjórnarskrárbreytingum. Hann telur þetta nauðsynlegt svo færa megi Tyrkland með öruggum hætti til framtíðar.

Erdogan Tyrklandsforseti notaði valdaránstilraun í fyrrasumar til að losa sig við pólitíska andstæðinga. Fjólunum á þeim akri gæti fækkað enn frekar fari hann með sigur af hólmi í þjóðatkvæðagreiðslunni í dag. Mynd/EPA

Andstæðingar Erdogan eru ekki á sama máli. Þeir óttast að nái stjórnarskrárbreytingar forsetans fram að ganga muni honum verða færð alltof mikil völd. Margt bendir til að þeir hafi nokkuð til síns máls. Í kosningabaráttunni hefur Erdogan m. a. sagt að fái hann sitt fram muni hann innleiða dauðarefsingar að nýju í Tyrklandi. Fáum blandast hugur um að andstæðingar forsetans í hópi þeirra sem meðal annars eru grunaðir um valdaránstilraun í fyrrasumar verði látnir fjölmenna fyrir framan byssuhlaupin verði þetta að veruleika.

Átökin í kosningabaráttunni hafa breiðst út til landa Vestur-Evrópu. Í síðasta mánuði var t. a. m. mikið írafár í Hollandi og Þýskalandi þegar liðsmönnum Erdogan úr ráðherraliði ríkisstjórnar Tyrklands var meinað að halda kosningafundi meða Tyrkja sem eru búsettir í þessum löndum. Í kjölfarið sparaði Erdogan ekki stóru orðin þar sem hann reyndi meðal annars að slá pólitískar keilur með því að æsa upp þjóðerniskenndir meðal Tyrkja og gera Vesturlönd að höfuðandtæðingi.

Í ljósi aðdragandans í kosningabaráttuni þá kemur ekki á óvart að mikil spenna er við kosningarnar í dag. Það er ekki nóg með að úrslitin séu bundin mikilli óvissu: Skoðanakannanir gefa mismunandi vísbendingar um niðurstöðuna. Báðar fylkingar, með og móti forsetanum, telja að þær eigi sigur vísann.

Síðustu misserin hefur böl mannskæðra hryðjuverka legið eins og mara yfir tyrknesku þjóðfélagi. Geysimiklar öryggisráðstafanir eru því kringum þjóðaratkvæðagreiðsluna í dag. Í Istanbul-borg einni saman munu um 34 þúsund lögreglumenn vera á vakt. Dogan-fréttastofan greinir frá því að þar í borg hafi 49 menn grunaðir um aðild að IS-hryðjuverkasveitum öfgaíslamista verið handteknir í liðinni viku.

Þetta er ekki hefðbundinn kosningadagur. Ég er sannfærður um að þjóð mín muni kjósa hraðari þróun og taka stökk fram á við,

sagði Erdogan eftir hann greiddi atkvæði í morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Umpólun Snorra?
Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?