fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Ferðamenn frá Asíu hafa uppgötvað vetrarríki Norður-Skandinavíu: Kína sættist við Noreg

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 14. apríl 2017 11:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veturinn sem nú er að líða hefur slegið öll met í ferðamennsku í Lófót í Norður-Noregi. Það eru einkum fólk frá Asíu og þá helst Kína sem koma. Nýorðnar sættir milli kínverskra og norska stjórnvalda spilla ekki fyrir þegar framtíðarvæntingar eru annars vegar.

Mikil aukning hefur orðið á fjölda vetrarferðamanna í Norður-Noregi frá löndum á borð við Japan, Kína, Singapore, Taiwan og Suður-Kóreu. Reyndar á þessi aukning við um gervalla Norður-Skandinavíu.

En í Lófót í Norður-Noregi hefur veturinn sem nú er að líða slegið öll fyrri met. Í vetur jókst fjöldi erlendra ferðamanna þar um 37 prósent samanborið við í fyrra.

Norska ríkisútvarpið NRK fjallar nú um ferðaþjónustuævintýrið sem menn telja að sé nú að taka á sig mynd í Norður-Noregi og reyndar um gervalla norðanverða Skandinavíu.

Við verður hreinlega að klípa okkur í handlegginn. Stórkoslegri vetrartímabil í ferðamennsku höfum við aldrei upplifað í Lófót. Þetta tímabil [sem nú er að líða] hefur nánast verið eins og sumartímabil,

segir Elisabeth Dreyer framkvæmdsstjóri markaðsstofu ferðamála í Lófót (Destinasjon Lofoten) við norska ríkisútvarpið NRK. Lófótur er þekktur fyrir stórkoslega náttúru, fögur fjöll og fiskveiðar með miklu lífi í sjávarplássunum. Elisabeth Dreyer segir að ferðamennirnir sækist eftir ýmsu.

Þau vilja taka myndir af náttúrunni, fjöllunum og fiskiverstöðvunum…Ekki síst koma mörg til að upplifa það sem þeim þykir framandi og öðruvísi. Hér hefur Lófótur margt að bjóða.

Þessi vetrarferðamennska skapar reyndar ákveðnar áskoranir sem Íslendingar ættu að kannast við. Ein þeirra er ferðamenn frá Asíu sem aka um þjóðvegina að vetrarlagi í leit að norðurljósum og öðru sem fangar augað, en hafa þó vart séð snjó fyrr á ævinni né hlotið þjálfun við að aka í fannfergi og hálku. Í Lófót hafa menn frá bílahjálparfyrirtækjum haft yfirdirfið nóg að gera í vetur í vinnu nánast allan sólarhringin við að draga upp langt að komna ferðamenn sem hafa fest sig eða keyrt út af í hálkunni.

Nokkur ár eru síðan vart varð við mikla aukningu ferðamanna frá Asíulöndum í norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar og Finnalands.

Undanfarin fimm ár höfum við haft nálega 40 prósenta árlega aukningu frá Asíu,

segir Jyrki Niva sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Lapland safaris í Norður-Svíþjóð.

Eins og á Íslandi þá er það náttúra norðurslóða og sjálf norðurljósin sem heilla fólkið frá Austurlöndum fjær. Enn sem komið er heimsækja flestir Norður-Noreg en nú hyggja Svíar á mikla uppbyggingu ferðaþjónustu á sínum norðurslóðum og sjá fyrir sér gríðarlega möguleika.

Ferðaþjónustuaðilar í norðurhluta Skandinavíu telja ferðamenn frá Asíu afar verðmæta þar sem þeir skilji mikið eftir sig. Kína er lang fjölmennasta landið og þar fjölgar utanlandsferðum ört. Árið 2015 lögðu 120 milljónir Kínverja land undir fót og skelltu sér út fyrir landamærin. Þetta var þreföld aukning frá 2010.

Norðmenn hafa reiknað út að hver ferðamaður frá Kína eyði um 8.000 norskum krónum á sólarhring í Noregi. Til samanburðar þá eyðir erlendur ferðamaður heilt yfir að meðaltali 1.280 norskum krónum á sólarhring í Noregi. Farþegar skemmtiferðaskipanna skilja minnst eftir sig eða aðeins 860 norskar krónur hver að meðaltali á sólarhing meðan þeir eru í landi.

 

Kínverjar fyrirgefa Norðmönnum að fullu

Kína hefur boðið Noregi inn úr kuldanum. Erna Solberg fór í upphafi þessarar viku fyrir stórri norskri sendinefnd í fyrstu heimsókn norsks forsætisráðherra til Kína í heilan áratug. Hér er hún með Xi Jinping forseta Kína en þau áttu fund mánudaginn 10. apríl.

Samskipti Noregs og Kína hafa verið all erfið síðustu ár eftir að norska Nóbelsnefndin veitti kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels árið 2010. Kínversk stjórnvöld svöruðu þessu með því að frysta Noreg úti. Viðskiptasambönd töpuðust.

Nú hefur allt hins vegar fallið í ljúfa löð.

Erna Solberg forsætisráðherra Noregs fór í opinbera heimsókn til Kína dagana 7. til 10 apríl. Þar leiddi hún stóra norska sendinefnd. Það var í fyrsta sinn í tíu ár sem norskur forsætisráðherra sótti Kína heim. Nú var Ernu Solberg tekið með kostum og kynjum. Noregur hefur verið tekinn í fulla sátt.

Xi Jinping forseti Kína hitti Solberg í Beijing á mánudag. Við það tækifæri sagði hann ákveðið að Kína vildi aukna samvinnu og samskipti við Noreg. Vart þarf að efa að norskt atvinnulíf og ekki síst ferðaþjónustan sér nú meiri tækifæri en nokkru sinni fyrr opnast í samkeppninni um að lokka og laða hina dýrmætu kínversku ferðamenn í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?