Margt þykir nú benda til að Norður-Kóreumenn hyggi á að sprengja kjarnorkusprengju í tilraunaskyni nú um páskahelgina. Fregnir berast nú af því að sérfræðingar telji sig geta ákveðin teikn af gerfihnattamyndum um að Pungye-ri tilraunasprengingasvæðið í Norður-Kóru sé nú klárt fyrir tilraunasprengingu eða tilraunaskot með eldflaugum sem geti borið kjarnaodda.
Mikið verður um dýrðir í Norður-Kóreu um komandi helgi þar sem 105 ár verða liðin á laugardag frá fæðingu Kim Il-Sung stofnanda ríkisins. Stjórnvöld í hátíðarskapi gætu freistast til að sprengja kjarnorkusprengju eða skjóta á loft öflugri eldflaug, bæði til að stappa stálinu í eigin þjóð en einnig til að sýna óvinum fram á að þeim verði mætt af fyllstu hörku reyni þeir að gera Norður-Kóreu skráveifu í formi hernaðaraðgerða. Ef um tilraunasprengingu yrði að ræða þá væri það hin sjötta sem Norður-Kóreumenn framkvæma. Það yrði í algeru trássi við vilja Bandaríkjanna sem telja að nú sé mælirinn fullur hvað varðar kjarnorkuvopnavígbúnað og hótanir af hálfu Norður-Kóreu.
Spenna virðist nú aukast hratt í Suðaustur-Asíu. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur stefnt öflugri flotadeild undir forystu flugmóðurskipsins Carl Vinson að Kóreuskaga. Með í för eru tveir bandarískir eldflaugatundurspillar og fjórir tundurspillar frá japanska sjóhernum. Þessi skip munu verða staðsett undan ströndum Norður-Kóreu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að Bandaríkin muni ekki líða neinar frekari ögranir af hálfu Norður-Kóreu. Jafnframt virðist hann horfa til þess að Kína blandi sér í málin og telji stjórnvöldum í Pyongyang hughvarf frá því að falla í freistni að sprengja kjarnorkusprengju eða senda risaeldflaugar á loft um helgina. Fyrr í dag birti Donald Trump þessa orðsendingu á Twitter:
I have great confidence that China will properly deal with North Korea. If they are unable to do so, the U.S., with its allies, will! U.S.A.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 13, 2017
Japanir búa sig undir eldflaugaárásir
Hið sama gildir um Japan. Þar í landi hafa stjórnvöld þungar áhyggjur af vígbúnaðarlegu framferði Norður-Kóreumanna. Shinzo Abe forsætisráðherra hefur greint japanska þinginu frá því að ekki sé einvörðungu um að ræða hugsanlega kjarnorkuógn heldur hafi Norður-Kórea einnig getu til að skjóta eldflaugum með baneitruðu sarín-gasi á Japan. Þetta er ástæða þess að Japanir senda nú tundurspilla sína með bandarískum herskipum að ströndum Norður-Kóreu.
Undanfarið hafa farið fram æfingar í Japan þar sem fólk er þjálfað til að bregðast við yfirvofandi eldflaugaárásum og leita skjóls. Hafa skólabörn meðal annars tekið þátt í slíkum æfingum. Slíkt hefur ekki gerst í hinu friðsæla Japan síðan seinni heimsstyrjöld lauk fyrir rúmum 70 árum.
Á sama tíma virðist engan bilbug að finna á stjórnvöldum í Norður-Kóreu.
Sterkur her okkar fylgist með eftirvæntingu með öllum hreyfingum óvinanna og kjarnorkuvopnum okkar er beint gegn innrásarstöðvum Bandaríkjanna – ekki aðeins í Suður Kóreu og á hafsvæðunum í kring, heldur líka á meginlandi Ameríku,
skrifar Norður-Kóreu dagblaðið Rodong Sinmun.