Tvær sprengingar áttu sér stað í neðanjarðarlestarkerfi St. Pétursborgar í Rússlandi í morgun, eða um 14:30 að staðartíma.
Myndir sem birst hafa á samfélagsmiðlum sýna lest með sundursprengdar hurðir á lestarvagni og mikinn reyk í neðanjarðargöngum. Fólk er að reyna að hjálpa slösuðum. Fjöldi fólks hefur særst. Fregnir herma að minnst tíu manns hafi særst en minnst 50 séu slösuð.
Önnur sprengingin átti sér stað á Sennaya Plosjad-lestarstöðinni en hin nærri tækniháskólanum í St. Pétursborg (Tekhnologitsjeskij Institut). Búið er að loka öllum neðanjarðarlestarstöðvum í borginni.
Interfax-fréttastofan í Rússlandi hefur greint frá því að þetta hafi verið sprengjur og að minnsta kosti önnur þeirra hafi verið fyllt af málmbitum til að valda sem mestu manntjóni. RIA-fréttastofan segir að um heimasmíðaðar sprengjur hafi verið að ræða. Borgarblaðið Fontanka greinir frá því að þriðja sprengjan hafi fundist við neðanjarðarlestarstöðina við Vosstanja-torg en hún hafi ekki sprungið.
Pulkovo-flugvellinum í St. Pétursborg var lokað eftir sprengingarnar og flestum flugvélum beint áfram til Moskvu. Farsímakerfið mun liggja niðri í sumum hlutum borgarinnar, að öllum líkindum vegna mikils álags þar sem fólk er að hringja í ástvini til að láta vita að það sé heilt á húfi.
10 people have been killed & 50 are injured after deadly blasts rock St. Petersburg subway, Russian media reports https://t.co/sOwLJ2XsZk pic.twitter.com/tWNlBJZmCT
— CBS News (@CBSNews) April 3, 2017
Búið er að láta Vladímír Pútín Rússlandsforseta vita af árásinni. Hann er nú staddur í Strelna rétt utan við St. Pétursborg en hann ætlaði að heimsækja borgina í dag. Pútín hefur þegar sagt við fjölmiðla á blaðamannafundi að yfirvöld skoði allar mögulegar skýringar á því hvað hafi valdið þessum sprengingum. Þar sé hryðjuverk ekki útilokað.
Sé um hryðjuverk að ræða þá er þetta sennilega mannskæðasta hryðjuverkaárás í Rússlandi til fjölda ára.
Neðanjarðarlestarkerfið í St. Pétursborg opnaði 1955. Það hefur stöðugt stækkað síðan og telur í dag fimm brautir með 67 stöðvum. Árlega fara um 740 milljónir farþega um flutningakerfið.