fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Gestur Jónsson um mannréttindadóm: „Svakalegt hvað langan tíma það tekur okkur að greiða úr málum eins og þessum“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 18. maí 2017 22:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gestur Jónsson lögmaður í myndveri Eyjunnar á ÍNN.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum þá var í morgun birtur dómur Mannréttindadóms Evrópu þar sem segir að íslenska ríkið hafi brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni vegna málaferla fyrir íslenskum dómstólum tengdum skattalagabrotum í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013. Íslenska ríkið á að borga bæði Jóni Ásgeiri og Tryggva rúmlega 20 þúsund evrur þar sem þeir Jón og Tryggvi höfðu áður verið dæmdir til að greiða sekt vegna sömu brota og því hafi dómurinn verið endurtekinn. Var Jón Ásgeir dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 62 milljóna króna sektar í Hæstarétti.

Gestur Jónsson lögmaður Jóns Ásgeirs var gestur Björns Inga Hrafnssonar í sjónvarpsþættinum Eyjunni á ÍNN sem frumsýndur var í kvöld. Hann rakti málsatvikin í þættinum:

Ef við förum aftur til ársins 2009 þá var Jón Ásgeir Jóhannesson og fleiri, sem stóðu frammi fyrir ákæru vegna þess að skattskil þeirra persónuleg og vegna Baugs hefðu ekki verið rétt. Áður en þessi ákæra hafði verið gefið út á hendur þeim af þessum ástæðum, þá hafði það gerst að skattamálið hafði farið í gegn hjá stjórnvöldum eins og ber að gera. Þar var búið að leggja á þá viðbótarskatta og síðan álög sem eru refsing vegna þess að menn hafi ekki talið rétt fram.

Í miðjum klíðum þessa máls þá kemur dómur frá Mannréttindadómstólnum í svokölluðu Zolotukhin-máli, sem varðaði rússneskan mann, þar sem niðurstaðan var sú að þegar búið er að refsa manni einu sinni vegna ákveðins atviks þá standist það ekki reglur Mannréttindasáttmálans að refsa þeim aftur vegna sama atviks. Og þegar þessi dómur lá fyrir þá var það ákvörðun héraðsdómarans í þessu máli að vísa málinu frá dómi, af þessari ástæðu. Ákæruvaldið kærði þessa niðurstöðu til Hæstaréttar og í september 2010 dæmdi Hæstiréttur að það skyldi felldur úr gildi þessi dómur Héraðsdóms og málinu var vísað til refsimeðferðar aftur til Héraðsdóms.

Þessa ákvörðun kærðum við til Mannréttindadómstólsins um áramótin 2010/2011. Síðan hafði þetta mál sinn gang í réttarkerfinu og í febrúar 2013 þá var kveðinn upp dómur í Hæstarétti þar sem þeir sem voru ákærðir í málinu voru sakfelldir að hluta og þeim var gerð refsing í formi sekta og skipulagsbundinnar fangelsisvistar. Þegar dómur Hæstaréttar lá fyrir var komin upp endanlega sú staða sem í rauninni kæran 2010/2011 laut að, þ. e. a. s. þá var búið að refsa tvisvar fyrir sama atvik. Það þýddi það að þá gat sjálf málsmeðferðin fyrir Mannréttindadómstólnum hafist.

Nú loks um mitt ár 2017 liggur niðurstaðan fyrir í dómnum sem Mannréttindadómstóllinn gerði heyrinkunnan í morgun:

Það er óneitanlega langur tími frá 2010 til 2017. En það mikilvæga er nú samt sem áður það, að niðurstaða Mannréttindadómstólsins er að um þessi mál sem hér er um að ræða, gildi nákvæmlega það sem kom fram í dómnum frá 2009 um það að þessi málsmeðferð sem hér var viðhöfð í þessu máli felur í sér brot gegn Mannréttindasáttmálanum,

sagði Gestur. Björn Ingi spurði Gest þá hvort hann hefði átt von á þessari niðurstöðu?

Ég hefði ekki lagt í þessa kæru, nema vegna þess einfaldlega að ég var sannfærður um það það væri rétt niðurstaða sem Héraðsdómurinn hafði komist að. Rétt í þeim skilningi að hún væri í samræmi við það sem Mannréttindadómstóllinn hafði áður dæmt. Svo er það aftur annað mál að auðvitað er það alltaf þannig að ef þú bíður lengi eftir dómi, að þá er það mikill fenginleiki sem fylgir því ef þú færð þá niðurstöðu sem þú telur rétta.

Gestur sagði að Jón Ásgeir væri einnig mjög ánægður:

Já, hann var auðvitað afskaplega glaður við þessa niðurstöðu og hann sjálfsagt segir eins og ég: „Ég trúði því sjálfur að þetta væri rétt.“

Jón Ásgeir hefur nú opnað vefsíðuna jonasgeirjohannesson.is þar sem hann gerir grein fyrir málinu. Gestur segir að tilgangur þeirrar síðu sé einfaldur.

Besta leiðin til að fá fólk til að meta hlutina er að leggja gögn málsins á borðið þannig að þeir sem hafa til þess tíma og nennu geta gengið úr skugga um það, um hvað atvikin eru, og af hverju dómurinn er felldur. Því fleiri sem kynna sér niðurstöðu mála á grundvelli staðreynda en ekki frásagna annarra, þeim mun meiri líkur eru á því að vit komist í umræðuna.

Nú þegar niðurstaðan liggur fyrir í máli Jóns Ásgeirs þá var Gestur spurður hvaða þýðingu hann teldi að þessi dómsniðurstaða hefði hér á landi?

Stóra málið í þessu er hvað menn ætla að gera núna, varðandi annars vegar þau mál sem þegar hafa verið dæmd…þau skipta tugum ef ekki hundruðum. Það er annars vegar það, menn sem þegar hafa fengið refsingu við aðstæður sem eru þannig að fólu í sér brot gegn reglum sem var verið að dæma um í morgun. Þessir aðilar standa nú frammi fyrir því að þeir verða að sækja eða leita eftir endurupptöku á sínum málum, og ef að við gefum okkur það nú á grundvelli þessa dóms Mannréttindadómstólsins verði sú endurupptaka veitt, að þá geng ég út frá því að mennirnir muni krefjast frásvísunar síðari refsingarinnar frá dómi, og endurgreiðslu á þeim fjárhæðum sem menn hafa orðið að borga, og síðan eftir atvikum krefjast bóta vegna þeirra refsinga sem þeir kunna að hafa orðið að þola vegna frelsissviptingar. Þetta er bara það sem er liðið. Síðan er það þannig að í kerfinu eru allmörg mál sem lúta sömu lögmálum og þetta mál laut sem nú var verið að dæma í. Ég ímynda mér að ákæruvaldið muni taka ákvörðun og fella þessi mál niður en það þarf auðvitað að taka þá ákvörðun í hverju máli fyrir sig. Ég geng nú út frá því að einhver heildstæð hugmyndafræði verið nú á bak við þá ákvörðun,

svaraði Gestur og vísaði til þess að ríki hefðu á sínum tíma brugðist við niðurstöðu Zolotukhin-málsins 2009 með mismunandi hætti og nefndi Svíþjóð í því samhengi.

Björn Ingi spurði Gest að því hversu mikilvægt það fyrir íslenska borgara að geta sótt sinn rétt fyrir dómstóli á borð við Manréttindadómstólnum?

Ég held nú satt að segja að okkar þjóðfélag sem er fámennisþjóðfélag, þjóðfélag fullt af tengingum og það verður að segjast eins og er að stundum veltir maður fyrir sér hvort að dómskerfið hafi að öllu leyti þá fjarlægð frá þeim sem eru þáttakendur í málunum, sem er æskilegt til þess að menn geti fellt hlutlæga dóma, að ég held að okkar þjóðfélag hafi meiri þörf fyrir utanaðkomandi aðhald eins og felst í aðildinni að Mannréttindasáttmálanum heldur en flest önnur þjóðfélög. Það er hins vegar erfitt það réttlæti sem tekur svo langan tíma að sækja,

sagði Gestur og vísaði til þess að upphaf þessa máls mætti rekja til húsleitar sem framkvæmd var hjá Baugi 28. ágúst 2002. Hér sé því um að ræða málarekstur sem tekið hafi nálega 15 ár.

Jón Ásgeir Jóhannesson. Mynd:DV/Sigtryggur Ari

Þetta er gamanlaust svakalegt mál hvað langan tíma það tekur okkur að greiða úr málum eins og þessum. Það gildir ekki í þessu eina tilviki. Við höfum lifað í samfélaginu undanfarin ár þar sem að margt fólk sem að ég tel prýðisfólk, og reyndar skiptir það engu máli hvort það væri það ekki, hefur orðið að þola það að vera haldið í stöðu sakborninga og beðið eftir niðurstöðum í erfiðum málum í heilan áratug. Ef að menn halda að þetta sé eitthvað létt þá er það vegna þess að þeir hafa ekki kynnst þessu. Ég þekki engan mann af öllu því fólki sem ég hef verið að tengjast í sambandi við mín störf þar sem þetta hefur ekki mikil áhrif. Mikil áhrif eru frá því að vera varanleg og önnur þar sem menn jafna sig sem betur fer. En þetta hefur mikil áhrif, ekki bara á einstaklinginn sjálfan, heldur einnig á hans nánasta umhverfi: maka, foreldra, börn, vini. Þetta er mein sem ég held við verðum að líta á sem raunverulegt,

sagði Gestur alvarlegur í bragði.

Björn Ingi spurði Gest að lokum hvað hann myndi nú gera?

Ég mun senda erindi og óska eftir endurupptöku á málinu. Og svo í framhaldi af því mun ég fara yfir það hvað, til hvers það nákvæmlega leiðir.

 

Hér fyrir neðan má sjá viðtal Björns Inga Hrafnssonar við Gest Jónsson:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“