Það kom öllum, fyrir utan efstu lögum í Hvíta húsinu í opna skjöldu þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti rak James Comey, forstjóra Alríkislögreglunnar FBI í gær. Blaðamenn bandaríska fréttamiðilsins Politico hafa tekið saman frásögn af aðdraganda brottrekstrarins sem byggð er á samtölum við nafnlausa heimildarmenn innan Hvíta hússins, FBI og víðar.
Samkvæmt Politico tók það Trump viku að ákveða að reka Comey. Þegar hann komst að niðurstöðu sendi hann Keith Schiller með bréf til höfuðstöðva FBI í Washington borg þar sem Comey var gerð grein fyrir brottrekstrinum. Comey var ekki þar staddur en hann var í Los Angeles þar sem hann var að taka þátt í viðburði tengdum „fjölbreytni í nýliðun“ og var að sögn viðstaddra orðlaus þegar honum barst til eyrna að hann hafi verið rekinn.
Að sögn heimildarmanna Politico hefur rannsókn FBI á meintum tengslum framboðs Trumps við Rússland farið mjög í taugarnar á forsetanum. Tveir ráðgjafar sem til þekkja segja að Trump hafi orðið þreyttur á því að hafa ekki stjórn á málinu og að takast ekki að þagga það niður. Einn ráðgjafi segir að Trump eigi það til að öskra á sjónvarpið þegar Rússamálið er þar til umræðu.
Þetta er þriðji stóri brottreksturinn í stuttri valdatíð Trump. Fyrst var það starfandi dómsmálaráðherra, Sally Yates, þjóðaröryggisráðgjafinn Michael Flynn og nú Comey. Reyndar var Yates eftirlegukind frá stjórn Obama en það var engu að síður óvenjulegt að hún hafi verið rekin.
Samkvæmt blaðamönnum Politico voru þessi tíðindi af brottrekstri Comey eitthvað sem kom flestum í opna skjöldu. Háttsettur yfirmaður í Hvíta húsinu segir að „enginn hafi vitað af þessu“ og „símarnir okkar tóku allir að titra og fólk sagði, ha?“.
Snilldarlegt útspil eða afdrifarík mistök?
Eins og áður kom fram vill Trump ná tökum á Rússahneykslinu en það er vafamál hvort þetta hafi verið það rétta í stöðunni til þess og segja sumir að þetta muni einvörðungu gera illt verra. Gagnrýnisraddir hafa heyrst úr báðum áttum, frá Demókrötum og Repúblikönum. Til að mynda hefur öldungadeildarþingmaðurinn Ben Sasse frá Nebraska sagt að „tímasetning þessa brottreksturs veki ugg“.
Reiði Trump í garð Comey hefur kraumað síðan hann viðurkenndi í síðustu viku við yfirheyrslur í þinginu að Alríkislögreglan væri að rannsaka kosningabaráttu Trump og að hann hafi ekki viljað rökstyðja fullyrðinga forsetans um að stjórn Obama hafi njósnað um Trump.
Gagnrýni í garð Comey hefur aukist jafnt og þétt, bæði meðal Demókrata og Repúblikana frá síðasta sumri þegar hann gaf frá sér langa yfirlýsingu um ástæður þess að hætt var rannsókn á tölvupóstmálum Hillary Clinton. Trump var af þeim sökum að búast við að brottrekstri Comey yrði tekið með lófaklappi en annað hefur komið á daginn. Í Hvíta húsinu vissi starfsfólk ekki hvaðan á sig stóð veðrið í gær þegar gagnrýnisraddirnar jukust stöðugt eftir því sem leið á daginn. Trump hringdi nokkur símtöl í gær um klukkan fimm að staðartíma og ræddi meðal annars við Chuck Schumer, leiðtoga minnihluta Demókrata í öldungadeildinni. Schumer sagði við Trump að hann væri að gera stór mistök og segja þeir sem til þekkja að Trump hafi brugðið mjög við þessi orð.
Trump ósáttur að enginn talaði máli hans
Í gærkvöldi horfði Trump á sjónvarpið og segja heimildarmenn að hann hafi verið afar ósáttur við það að enginn væri þar að verja sjónarmið hans. Hann vildi fá fulltrúa sína til að koma sínum boðskap á framfæri og gengu ásakanirnar á víxl milli ráðgjafa hans um það hver hefði klúðrað málunum með þessum hætti.
Í bréfinu sem Trump sendi Comey kom fram að Comey hefði þrisvar sinnum fullvissað forsetann um að hann væri ekki til rannsóknar. Talsmenn Hvíta hússins hafa ekkert viljað tjá sig um það hvenær það á að hafa gerst eða hvers vegna Comey ætti að hafa sagt slíkt. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Trump tjáir sig um yfirstandandi rannsóknir en það hefur hingað til verið eitthvað sem forsetar Bandaríkjanna láta algjörlega vera.
Aðstoðardómsmálaráðherrann Rod Rosenstein og dómsmálaráðherrann Jeff Sessions sendu Trump báðir bréf í gær þar sem þeir fóru þess á leit við forsetann að hann viki Comey tafarlaust úr starfi. Talsmaður forsetans segir að Trump hafi ekki óskað eftir þessum bréfum en í kjölfarið tók hann þá ákvörðun að reka Comey, byggt á ráðgjöf Rosenstein og Sessions. Heimildir Politico herma að bréfin hafi verið skrifuð til að réttlæta aðgerðir Trump.
Bað um meira fjármagn til að rannsaka tengsl Trump við Rússland
New York Times greindi frá því nú rétt í þessu að Comey hefði farið þess á leit við dómsmálaráðuneyti Sessions fyrir nokkrum dögum að Alríkislögreglan fengi meira fjármagn til rannsóknarinnar á tengslum Trump við Rússland. Auk þess fór hann fram á að fá að ráða fleira starfsfólk til að sinna rannsókninni. Þetta segja þrír embættismenn sem hafa vitneskju um beiðnina. Þetta fór Comey fram á á fundi með áðurnefndum aðstoðardómsmálaráðherra, Rosenstein. Comey er síðan sagður hafa greint þingmönnum frá þessari bón sinni.