Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Donald Trump, Bandaríkjaforseta, er nú til rannsóknar hjá Robert Mueller sem rannsakar meint tengsl framboðs Trump við Rússa. Washington Post segir að Mueller sé nú að rannsaka fjármála- og viðskiptatengsl Kushner áður en Trump var kosinn forseti. Blaðið segir að Kushner hafi fundað með sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum og Sergej Gorkov, bankastjóra þróunarbanka í Rússlandi, í Trump tower í desember. Þróunarbankinn hefur sætt viðskiptaþvingunum af hálfu bandarískra stjórnvalda.
Washington Post segir að rannsóknin á Kushner geti haft alvarlegar afleiðingar og haft í för með sér að nánustu samstarfsmenn og ættingjar Trump verði kallaðir til yfirheyrslu. Kushner er einn áhrifamesti maðurinn í Hvíta húsinu þessa dagana og tekur þátt í mörgum fundum um utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Fram að þessu hefur rannsókn Mueller beinst að hugsanlegri íhlutun Rússa í forsetakosningarnar í nóvember og hugsanlegt samstarf kosningaframboðs Trump við ráðamenn í Kreml.
Í gær var skýrt frá því að Mueller sé einnig að rannsaka hvort Trump sé sjálfur tengdur við málið. Trump brást við þessu með færslu á Twitter og sagði að nú stæðu yfir mestu nornaveiðar bandarískrar stjórnmálasögu.