fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Hvað kom fyrir Sanna Finna?

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 14. júní 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd/EPA

Fyrr í vikunni varð stærsta stjórnmálakrísa Finnlands í mörg ár og vakti það athygli víða út fyrir landsteinanna enda er landið ekki þekkt fyrir mikil átakastjórnmál. Á tímabili leit út fyrir að stjórn landsins myndi falla en svo varð ekki, þessi krísa stóð einungis í fjóra daga. Rót hennar er klofningur í hinum þjóðernissinnaða flokki Sönnum Finnum.

Þann 10. júní var Jussi Halla-aho valinn leiðtogi Sannra Finna. Það olli því að flokkurinn klofnaði í tvo helminga. Þann 13. júní tilkynnti um helmingur þingmanna flokksins, alls 20 þingmenn að þeir hefðu stofnað nýjan flokk á þingi sem kallar sig Nýja valkostinn. Meðal meðlima hans er Timo Soini, fyrrum leiðtogi Sannra Finna og margir úr efstu lögum hans. Þetta hefur lítil áhrif á stjórnina sem Sannir Finnar eru þátttakendur í en þeim mun meiri áhrif á það hvernig hefðbundnir flokkar í Evrópu takast á við popúlistaflokka á borð við Sanna Finna segir breska tímaritið The Economist.

Í mars síðastliðnum blossuðu upp deilur innan Sannra Finna þegar Soini, sem var einn af stofnendum flokksins og leiðtogi hans síðan 1997 ákvað að stíga til hliðar. Flokkurinn hefur alla tíð verið íhaldssamur í samfélagsmálum, haft efasemdir um Evrópusambandið og andsnúinn innflytjendum. Soini hafði undanfarin ár reynt að færa flokkinn nær hefðbundnum stjórnmálaflokkum í Finnlandi og eftir að flokkurinn varð næst stærstur á þingi eftir kosningarnar 2015 gekk flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarf með Miðflokknum og Þjóðabandalaginu.

Ríkisstjórnin samþykkti að ljúka vinnu við að leyfa hjónabönd samkynhneigðra, samþykkja björgunaraðgerðir til handa Grikkjum og taka við flóttafólki frá Írak og Sýrlandi. Þetta voru allt hlutir sem Sannir Finnar voru harðlega andsnúnir hér áður fyrr. Þessi meðferð á Sönnum Finnum þótti vera fyrirmynd fyrir aðra stjórnmálamenn í Evrópu um það hvernig ætti að temja villtustu óra popúlískra flokka, með því að fá þá í ríkisstjórnarsamstarf og láta þá samþykkja málamiðlanir mætti reyna að milda afstöðu þeirra.

Þessi ,gelding‘ Sannra Finna gerði það að verkum að innan flokksins urðu átök sem enduðu eins og áður sagði með því að Soini sagði af sér og flokkurinn klofnaði. Halla-aho er stjórnmálamaður í ætt við Donald Trump, hann biðst ekki afsökunar á ummælum sínum, hefur kallað Íslam trúarbrögð barnaníðinga og margt fleira. Þetta skilaði honum formannsæti í Sönnum Finnum þar sem hann tókst á við Sampo Tehro sem Soini hafði útnefnt arftaka sinn.

Þegar úrslit formannskjörsins voru ljós var ríkisstjórnin í hættu og sumir bjuggust við því að kallað yrði til kosninga. Það slapp fyrir horn því með klofningi flokksins var meirihluti stjórnarinnar tryggður. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður forvitnilegt að sjá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!