Ivanka dóttir Donalds Trump Bandaríkjaforseta segist ekki hafa verið viðbúin því hve umræðan um fjölskyldu sína gæti orðið rætin eftir að hún flutti ásamt Jared Kushner eiginmanni sínum til Washington eftir að faðir hennar varð forseti. Þar starfa þau bæði sem ráðgjafar forsetans.
Ivanka var gestur í morgunþættinum Fox & Friends á Fox News sjónvarpsstöðinni í gærmorgun. Þar leit hún um öxl og tjáði sig um fyrstu 150 dagana í Hvíta húsinu.
Við fluttum til Washington. Við vildum hjálpa til og framkvæma stóra og mikilvæg verkefni. Stigið á illskunni kom mér hins vegará óvart. Ég var ekki viðbúin þessu. En þetta á heldur ekki að vera auðvelt,
sagði Ivanka og lagði enga dul á að fyrstu 150 dagarnir væru búnir að vera krefjandi tími. Hún bætti því svo við að margt fólk úti í hinu bandaríska þjóðfélagi yrðu þó svo sannarlega að takast á við erfiðari daga og aðstæður en hún hefði gert.
Ég átti ekki von á því hversu mikið þetta yrði á persónulega planinu,
sagði hún einnig og átti þar við gagnrýni andstæðinga forsetans. Hér má sjá viðtalið við Ivönku:
https://www.youtube.com/watch?v=5_J9mRI4t-c
Trump-fjölskyldunni í Washington barst á hinn bóginn liðsauki um liðna helgi. Þá fluttu Melania Trump forsetafrú og Barron Trump 11 ára gamall sonur forsetahjónanna og litli hálfbróðir Ivönku frá Trump Tower í New York í Hvíta húsið í Washington. Melania lét vita af þessu með tísti á Twitter þar sem fylgdi mynd af Washington-minnismerkinu tekin úr Hvíta húsinu. Melania sagðist hlakka til þeirra minninga sem þau myndu fá á þeirra nýja heimili.
Looking forward to the memories we'll make in our new home! #Movingday pic.twitter.com/R5DtdV1Hnv
— Melania Trump (@FLOTUS) June 12, 2017
Forsetahjónin höfðu ákveðið að bíða með þennan flutning þar til nú svo Barron gæti lokið skólavetrinum í New York. Í haust fer Barron svo í einkaskóla í Maryland.