Ítölsk stjórnvöld hafa eytt hundruðum milljón evra í móttöku flóttafólks sem kemur til landsins sjóleiðina frá Afríku en engu að síður eru aðstæður þess oft bágbornar. Nú hefur yfirgripsmikil lögreglurannsókn leitt í ljós að ítalska mafían hefur fengið í sinn hlut milljónatugi frá ríkinu, fjármagn sem átti að fara til að veita flóttafólki sæmilegan mat og húsaskjól hefur þess í stað verið stungið í vasa fárra einstaklinga.
Á Ítalíu hefur verið farin sú leið við móttöku flóttafólks að opna miðstöðvar og slíkt hefur verið boðið út til einkaaðila. Ein slík stöð er staðsett á Isola Di Capo Rizzuto og var hún rekin af prestinum Edoardo Scordio og hjálparsamtökum sem hann var í forsvari fyrir. Þar fékk flóttafólk myglaðan kjúkling að borða eftir að hafa lagt á sig erfitt ferðalag yfir eyðimerkur, hættulegt Miðjarðarhafið og í gegnum stríðssvæði.
Á sama tíma sást til prestsins borða á fínum veitingastöðum, gista á fimm stjörnu hótelum og á hann að hafa fyllt þrjá peningaskápa af evrum að því er lögregla heldur fram. Samstarfsmenn hans, mafían, makaði einnig krókinn og samkvæmt málsgögnum settu sumir upp krana úr gulli á baðherbergjum sínum að því er fram kemur í umfjöllun New York Times um málið.
Síðasta vor voru 68 manns handteknir í tengslum við svindl, sóun á almannafé og tengslum við skipulagða glæpastarfsemi í Calabria, þar á meðal presturinn Scordio. Það er hins vegar bara þekktasta dæmið um slíkt og er talið að sambærilegt fyrirkomulag sé að finna víðar á Ítalíu, óprúttnir aðilar og mafían að hagnast vel á því að sýsla með flóttafólk en það sem af er þessu ári hafa 83 þúsund manns komið sjóleiðina til Ítalíu.
Að sögn eins öflugasta andstæðings mafíunnar á Ítalíu, Nicola Gratteri er mafían þar sem völd og fjármagn má finna. Eftir að þrengt var að vímuefnasmygli og sölu hafa mafíósar í auknum mæli fært sig yfir í fjárhættuspil og flóttamenn. Stjórnvöld í Róm, ásamt Evrópusambandinu sáu móttökustöðinni í Calabria fyrir um það bil 30 evrum á dag á haus fyrir hvern flóttamann sem þar var vistaður í fyrrum NATO herstöð, umkringdri gaddavír. Peningurinn átti að fara í fæði, klæði og húsnæði, félagsráðgjafa og ítölskukennslu en fór þess í stað í vasa mafíunnar.