Bann Belga á búrkum er löglegt að mati Mannréttindadómstóls Evrópu. Árið 2011 settu Belgar lög sem banna búrkur og önnur klæði sem hylja andlit á almannafæri. Í dag komst svo Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að bannið bryti ekki í bága við rétt fólks til einkalífs og rétt fólks til trúarskoðana.
Segir í niðurstöðu dómsins, sem greint er frá á vef Independent, að ríkisstjórnin hafi með lögunum verið að bregðast við hefð sem stangaðist á við belgískt samfélag:
Þetta er hefð sem álitin er ósamrýmanleg við belgískt samfélag, við félagsleg samskipti og grundvöll mannlegra samskipta, sem eru ómissandi þáttur af því að lifa í samfélagi og tryggir hlutverk lýðræðislegs samfélags.
Í mars síðastliðnum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að fyrirtækjum sé heimilt að banna starfsfólki að klæðast höfuðklútum ef klútarnir eru notaðir sem tákn fyrir trúarskoðun viðkomandi.