Eftir Björn Bjarnason:
Norður-Kóreumenn segja að þeim hafi tekist að senda langdræga eldflaug á loft of hafi hún flogið í 39 mínútur. Frétt um eldflaugaskotið var kynnt í sjónvarpi Norður-Kóreu þriðjudaginn 4. júlí með þeim orðum að „þáttaskil“ hefðu orðið með vel heppnaðri tilraun með Hwasong-14 eldflauginni og hefði leiðtogi þjóðarinnar, Kim Jong-un stjórnað aðgerðinni. Eldflaugin fór í 2.802 km hæð og 933 km vegalengd.
Sjónvarpsþula sagði að Norður-Kórea væri „öflugt kjarnorkuveldi“ og ætti „mjög öfluga ICBM-eldflaug sem dregur til skotmarka hvarvetna í heiminum“.
ICMB stendur fyrir Inter-continental Ballistic Missile, á íslensku langdræg eldflaug.
Að kvöldi þriðjudags 4. júlí birti The Washington Post frétt um að eldflauga-sérfræðinga væru samdóma um að Norður-Kóreumenn hefðu eignast ICBM-flaug. Þeir gætu náð til skotmarka í mörg þúsund mílna fjarlægð frá landi sínu.
Eins og segir hér að ofan fór eldflaugin að þessu sinni meira en 2.000 km út í geiminn. Hefði hún haldið sig á venjulegri braut hefði hún dregið um 6.400 km og þar með yfir allt Alaska. Eldflaug sem dregur meira en 5.400 km er talin langdræg (ICBM).
Her Suður-Kóreu sagði þriðjudaginn 4. júlí að Norður-Kóreumenn hefðu skotið flauginni út á Japanshaf frá norðurhéraði lands síns í grennd við landamæri Kína.
Rússnesk og kínversk stjórnvöld sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þriðjudaginn 4. júlí þar sem hvatt er til þess að Norður-Kóreumenn hætti tilraunum sínum með kjarnavopn og eldflaugar og samtímis hætti Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn heræfingum sínum.
Xi Jinping, forseti Kína, hitti Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í Moskvu þriðjudaginn 4. júlí.
Norður-Kóreumenn hafa lengi stefnt að því að smíða eldflaug sem geti flutt sprengjuodd til Bandaríkjanna. Vísbendingar eru um að nú hafi flaug þeirra farið lengra en fyrri flaugar þeirra og kunni hún að ná til Alaska.
Efasemdir hafa verið um að Norður-Kóreumenn geti smíðað svo litla kjarnasprengju að hún komist í nef eldflaugar. Þá telja sérfræðingar vafasamt að Norður-Kóreumenn hafi þróað tækni sem gerir þeim kleift að tryggja endurkomu kjarnaoddsins inn í gufuhvolf jarðar eftir að hafa skotið honum út fyrir það.
Varnarmálaráðherra Japans segir að norður-kóreska flaugin kunni að hafa dregið inn í 200 mílna efnahagslögsögu Japans og lent þar. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði við blaðamenn: „Þetta eldflaugaskot sýnir svo að ekki verður um villst að ógnin hefur aukist.“
Eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna hét hann því að koma í veg fyrir að N-Kóreumenn eignuðust kjarnorkuvopn sem ógnuðu Bandaríkjunum. Eftir að fréttir bárust af eldflaugaskotinu sendi Trump frá sér boð á Twitter og vék hann að Kim Jong-un og hvatti Kínverja enn á ný til að beita hann meiri þrýstingi.
Trump sagði:
Norður-Kóreumenn hafa enn einu skotið á loft eldflaug. Hefur þessi gaur ekkert betra að gera?
Trump sagði einnig: „Erfitt að trúa því að Suður-Kóreumenn og Japanir þoli þetta öllu lengur. Kannski Kínverjar láti Norður-Kóreumenn finna fyrir því og stöðvi þessa vitleysu í eitt skipti fyrir öll.“