Enn ríkir óvissu- og hættuástand við Uummannaq-fjörð á Norðvestur-Grænlandi eftir berghlaupin og flóðin sem urðu fyrir tveimur vikum síðan. Þá fórust fjórir. Byggðir voru rýmdar. Enn hafa íbúar í þorpunum Nuugaatsiaq og Illorsuit ekki fengið að snúa heim á ný. Svo getur farið að fólkið muni aldrei eiga afturkvæmt þar sem mikil hætta er talin á frekari berghlaupum með flóðbylgjum í kjölfarið.
Kim Kielsen formaður grænlensku landsstjórnarinnar sagði á blaðamannafundi í gær að hættan á því að þessi þorp yrðu fyrir nýjum flóðum væri stöðugt fyrir hendi. Ekki er fyrir hendi neitt viðunandi viðvörunarkerfi sem gæti gert fólki kleift að flýja á örugga staði ef nýjar flóðbylgjur kæmu frá staðnum þar sem berghlaupið mikla varð 17. júní síðastliðinn.
Ný flóðbylgja mun lenda á byggðunum um fimm mínútum eftir ný skriðuföll og því er ekki öruggt fyrir íbúana að snúa aftur heim,
hefur grænlenska útvarpið eftir Kielsen á fréttavef sínum.
Þegar hafa fleiri skriðuföll orðið í Grænlandi. Nú á fimmtudagsmorgun hrundu björg við þorpið Ukkusissat sem er norðan Ummanaq-fjarðar. Enginn varð fyrir tjóni en mikið gekk á og fólk átti fótum fjör að launa eins og þetta hrikalega myndband sýnir:
Grænlensk stjórnvöld hafa kallað til norska sérfræðinga til að meta hættuna á frekari berghlaupum og skriðuföllum. Þeir meta hættuna 11,5 samkvæmt norskum hættuskala sem nær til 12 sem sú tala gefur til kynna mestu hættuna.
Sú hugmynd hefur komið til tals að koma fyrir öflugum sprengihleðslum í hlíðum fjallanna við Karrat Ísfjörðinn þar sem berghlaupið varð og þannig freista þess að sprengja niður óstöðugustu hlutana sem sátu eftir þegar berghlaupið varð.
Norsku sérfræðingarnir meta það svo að þetta sé of áhættusamt. Lítil reynsla er af slíkum aðgerðum sem eru mjög flóknar í framkvæmd. Það yrði að bora fyrir sprengihleðslunum og slíkt krefst þess að menn fari upp í hlíðarnar og klettana. Þetta er talið stórhættulegt því enginn veit hvort og þá hvenær ný berghlaup fara af stað. Menn sem stæðu í hlíðunum þegar slíkt gerðist þyrftu ekki að kemba hærurnar.
Nú er talið að Grænlendingar þurfi að standa frammi fyrir því að ný berghlaup geti orðið hvenær sem er á þessum slóðum og að hættan á slíku gæti varað í áratugi og jafnvel í einhverjar kynslóðir. Þar með eru líkur á að íbúar Nuugaatsiaq og Illorsuit muni aldrei eiga afturkvæmt til heimila sinna.
Söfnunin „Vinátta í verki“ gengur vel
Fjársöfnun sú sem Kalak – vinafélag Grænlands á Íslandi, Taflfélagið Hrókurinn, Hjálparstarf kirkjunnar og aðrir Grænlandvinir settu af stað til hjálpar þeim sem urðu fyrir flóðbylgjunum á Grænlandi gengur vel. Í gærkvöldi var innsöfnuð heildarfjárhæð komin í 30 milljónir króna. Markmiðið er að ná að safna 50 milljónum króna.
Þegar svona náttúruhamfarir verða er mikilvægt að rétta hjálparhönd og sýna vinarhug um leið. Þetta eru bæði Íslendingar og Færeyingar að gera nú í garð Grænlendinga. Aðal atriðið er að senda kærleiksrík skilaboð út á við til þeirra sem eiga um sárt að binda. Það er fólki mikilvægt að finna hlýhuginn,
segir Hrafn Jökulsson sem hefur verið talsmaður söfnunarinnar fram til þessa.
Hrafn segir að söfnunin fari fram víða um land. Sem dæmi nefnir hann Árneshrepp á Ströndum, Flateyri og Grímsey.
Á Flateyri er það björgunarsveitin sem hefur staðið fyrir söfnun meðal Flateyringa um allan heim. Þar vill fólk endurgjalda landssöfnun sem Grænlendingar efndu til þegar snjóflóðinn féllu á Flateyri 1995. Mér skilst að þar hafi þegar safnast ein milljón króna,
segir Hrafn sem sjálfur fer til Flateyrar á morgun sunnudag til að veita viðtöku söfnunarfé þar.
Hrafn segir að skorað hafi verið að öll 74 sveitarfélög Íslands að taka þátt.
Þau eru að taka höndum saman. Reykjavík og stóru sveitarfélögin svo sem Kópavogur hafa þegar gefið umtalsverða fjármuni. Hér eru það þó ekki upphæðirnar sem skipta fyrst og fremst máli heldur að allir séu með og við sýnum þjóðarsamstöðu.
Allir flokkar á þingi hafa komið með framlög.
Sömuleiðis Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífisins, auk þess sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa mörg hver brugðist vel við.
Grænlenskir fjölmiðlar hafa fjallað um söfnunina á Íslandi.
Grænlendingar fylgjast mjög vel með því sem gerist á Íslandi og þar er mikið þakklæti í okkar garð. Ég held að þetta muni breyta samskiptum þjóðanna til mikilla góða þegar til lengri tíma er litið.
Féð í söfnunni mun renna heilt og óskipt til fólkins sem varð verst úti og missti heimili sín og eigur.
Það hefur ekki verið eytt einni einustu krónu í að auglýsa söfnunina eða neitt þess háttar,
segir Hrafn.
Í gær efndu leikskólabörn í Öskju í Reykjavík til sölusýningar á verkum sem þau höfðu búið til. Tekjurnar runnu til söfnunarinnar „Vinátta í verki.“
Við sama tækifæri voru þau Karl Ottesen Faurschou og Íris Björk Heiðrúnardóttir kynnt til leiks sem nýir talsmenn söfnunarinnar. Karl er frá Qaqortoq á Grænlandi og Íris frá Ísafirði á Íslandi.
Hjálparstofnun kirkjunnar hefur opnað söfnunarreikninginn 0334-26-056200, kennitala 450670-0499. Einnig er hægt að hringja í númer 907-2003 og þannig leggja 2.500 krónur í söfnunina „Vinátta í verki.“