Margrét Tryggvadóttir hefur verið ráðin aðstoðarforstjóri Nova. Sem aðstoðarforstjóri mun hún bera ábyrgð á daglegum rekstri fyrirtækisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nova.
Margrét hefur verið einn af lykilstjórnendum Nova og starfað hjá fyrirtækinu frá stofnun, en hún hóf störf í þjónustuveri Tals fyrir 18 árum. Margrét gegndi síðast starfi framkvæmdastjóra sölu og þjónustu og tekur nú við nýju hlutverki innan fyrirtækisins.
Þetta er gríðarlega spennandi verkefni að leiða daglegan rekstur Nova. Ég hef starfað í fjarskiptageiranum nær óslitið frá árinu 1999 og fengið að taka þátt í ótrúlegum breytingum, bæði á sviði fjarskipta, en ekki síður í markaðsmálum og samskiptum almennt. Fyrst hjá Tali og síðar sem vörustjóri hjá Vodafone eftir sameiningu Tals og Íslandssíma. Ég var svo lánsöm að fá að taka þátt í stofnun og uppbyggingu Nova allt frá fyrsta degi og ég er ótrúlega stolt af árangrinum sem við höfum náð. Ég hlakka til, í þessu nýja hlutverki, að vinna nýja sigra með starfsfólki Nova,
segir Margrét. Sölu- og þjónustusviði Nova verður nú skipt upp í tvö svið, annars vegar einstaklingssvið og hins vegar fyrirtækjasvið. Þuríður Björg Guðnadóttir hefur verið ráðin til að stýra einstaklingssviði og hefur jafnframt tekið sæti í framkvæmdastjórn Nova. Nova hyggst á næstunni ráða í stöðu yfirmanns fyrirtækjasviðs.
Á þeim 10 árum sem Nova hefur starfað, hefur fyrirtækið þróast mikið. Í dag starfa hér um 140 starfsmenn og velta fyrirtækisins er tæplega 9 milljarðar. Við þjónustum einstaklinga á sviði farsímaþjónustu og ljósleiðaraþjónustu og höfum jafnframt hert sókn okkar á fyrirtækjamarkað,
segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova:
Við gerum þessar skipulagsbreytingar nú til að efla enn frekar stjórnendateymi félagsins og byggja undir áframhaldandi þróun og vöxt Nova.
Margrét hóf störf í þjónustuveri Tals árið 1999 en færði sig fljótlega yfir í markaðsmál og varð síðar vörustjóri þegar Tal og Íslandssími sameinuðust í Vodafone. Hún starfaði þar til loka ársins 2005 þegar hún tók við sem forstöðumaður markaðsmála fyrir Sparisjóðinn en sneri svo aftur í fjarskiptageirann til að taka þátt í stofnun Nova. Margrét leiddi fyrst markaðs- og vefdeild fyrirtækisins en hefur frá árinu 2012 verið framkvæmdastjóri sölu og þjónustu Nova. Margrét er alþjóðamarkaðsfræðingur með B.Sc. gráðu frá Tækniháskólanum (nú HR). Margrét hefur reynslu af stjórnarsetu í ýmsum fyrirtækjum og þá hefur hún gegnt trúnaðarstörfum fyrir Félag atvinnurekanda og Stjórnvísi. Maki Margrétar er Magnús Sigurjónsson og eiga þau 2 börn.
Þuríður hefur starfað hjá Nova frá upphafi starfsferils síns. Fyrst sem sölu- og þjónusturáðgjafi og síðar sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. Þuríður tók við stöðu sem sölu- og þjónustustjóri Nova árið 2014 og verður nú yfir allri sölu og þjónustu til einstaklinga. Þuríður er með B.Sc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun frá sama skóla. Maki Þuríðar er Darri Örn Hilmarsson og eiga þau þrjú börn.