Fjölmargir erlendir fjölmiðlar fjalla um fall ríkisstjórnar Íslands. Bandaríska viðskiptadagblaðið Financial Times birtir meðal annars frétt á vef sínum undir fyrirsögninni „Uppreistar æru hneykslismál vegna barnaníðs fellir samsteypustjórn Íslands“.
Þar er greint frá málavöxtum og rifjað upp þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra hrökklaðist frá völdum vegna Panama-skjalanna svokölluðu. Í frétt sinni nefnir Financial Times að Bjarni Benediktsson hafi einnig verið nefndur í þessum skjölum.
Blaðið greinir einnig frá því að Benedikt Sveinsson faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra hafi skrifað upp á meðmæli fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson þegar sá hafi sótt um uppreist æru. Hjalti Sigurjón hafi verið dæmdur 2004 fyrir að nauðga stjúpdóttur sinni ítrekað.
Því var haldið leyndu að Hr. Sveinsson skuli hafa útbúið bréfið þar til þingnefnd úrskurðaði skipaði dómsmálaráðuneytinu að opinbera málið. Samkvæmt fréttum ríkisfjölmiðilsins RUV hafði forsætisráðherra vitað af bréfinu um mánaða skeið,
skrifar Financial Times í frétt sinni.
Bandaríska stórblaðið greinir líka frá Twitter-færslu Smára McCarthy þingmanns Pírata sem birt var á fimmtudagsmorgun. Þar segir Smári að upp sé komið mál á Íslandi sem svari til máls breska níðingsins Jimmy Savile.
Iceland's Jimmy Savile case: our PM, who was in the Panama Papers, has hid for two months his father's support for a pedophile's clemency.
— Smári McCarthy (@smarimc) September 14, 2017
Norrænir fjölmiðlar fjalla einnig um fall ríkisstjórnarinnar. Norska fréttastofan NTB sem dreifir fréttum sínum til fjölmiðla í Noregi sendi í gærkvöldi út frétt.
Þar er fyrirsögnin: „Ríkisstjórn Íslands er hrunin eftir barnaníðshneyksli. Verða að boða til kosninga.“
Í Damörku hefur Ritzau-fréttastofan sent út frétt undir fyrirsögninni „Bréf í máli dæmds manns í barnaníðsmáli hefur þvingað Ísland til nýrra kosninga.“
Sú frétt er meðal annars birt á vef Jyllands-Posten, eins stærsta dagblaðs Danmerkur.